„Prógrammið er að virka“

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun. Hann virkaði nokkuð …
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á fundinum í morgun. Hann virkaði nokkuð bjartsýnn á stöðuna á Íslandi. mbl.is/Karítas

Ásgeir Jóns­son seðlabanka­stjóri var nokkuð já­kvæður á kynn­ing­ar­fundi pen­inga­stefnu­nefnd­ar í dag þrátt fyr­ir blik­ur á alþjóðasviðinu þegar kem­ur að mögu­legu tolla­stríði og áhrif­um sem slíkt gæti haft á Ísland. Hann á von á áfram­hald­andi lækk­un verðbólgu og að slíkt geti verið und­ir­staða þess að raun­vaxta­stig lækki.

Í morg­un var ákveðið að lækka stýri­vexti í fjórða skipti í röð, nú um 0,25 pró­sentu­stig, og eru þeir komn­ir niður í 7,75%.

Ítrekaði Ásgeir reglu­lega á fund­in­um að verðbólgu­spár væru að ganga eft­ir, hann ætti von á frek­ari lækk­un verðbólgu og í kjöl­farið lækk­un verðbólgu­vænt­inga og að ekki væru mik­il skulda­vand­ræði í kerf­inu.

Gera ráð fyr­ir áfram­hald­andi lækk­un verðbólgu

„Pró­grammið er að virka,“ sagði hann til að ít­reka skoðun sína á að staðan væri góð.

Ásgeir sagði verðbólgu vera að leita niður og að hann ætti von á frek­ari lækk­un henn­ar á næst­unni. „Við erum að gera ráð fyr­ir því að 12 mánaða takt­ur­inn lækki í næstu mæl­ingu,“ sagði Ásgeir, en verðbólgu­töl­ur Hag­stof­unn­ar fyr­ir mars verða birt­ar í næstu viku.

„Við eig­um bara von á að þetta haldi áfram og að við séum að fara að keyra þetta í mark­mið,“ bætti Ásgeir við síðar á fund­in­um. Mark­mið Seðlabank­ans er 2,5% vext­ir með 1,5 pró­sentu­stiga vik­mörk­um.

„Þetta er að virka mjög vel núna og við för­um ekki að hætta því sem virk­ar vel,“ sagði Ásgeir jafn­framt á já­kvæðu nót­un­um.

Fræðslu­her­ferð Seðlabank­ans

Var Ásgeir meðal ann­ars spurður út í það að verðbólgu­vænt­ing­ar heim­ila væru ekki að fylgja lækk­un verðbólgu í síðustu mæl­ingu og hvort hann hefði áhyggj­ur af því að trú al­menn­ings á lækk­un verðbólgu væri að þverra. Ásgeir gaf ekki mikið fyr­ir það og sagði um staka mæl­ingu að ræða og hann ætti von á að vænt­ing­arn­ar tækju við sér þegar verðbólga héldi áfram að lækka.

Sagði hann jafn­framt að stór hluti lands­manna hefði eft­ir hrun frek­ar sett sparnað í fast­eigna­markaðinn en t.d. hluta­bréf og að mögu­lega þyrfti þessi hóp­ur að sjá skýr merki á fast­eigna­markaði um að verð væri ekki að hækka áður en áhrif­in kæmu fram í verðbólgu­vænt­ing­um.

Grínaðist hann með að kannski þyrfti Seðlabank­inn bara að ráðast í fræðslu­her­ferð ef vænt­ing­arn­ar lækkuðu ekki í kom­andi mæl­ing­um.

Ekki tími enn til að slaka á raun­vaxta­stigi

Raun­vaxta­stig hér á landi er um 4% og sagði Ásgeir á fund­in­um að pen­inga­stefnu­nefnd telji enn sem komið er að ekki sé hægt að slaka á raun­vaxtaaðhald­inu, meðal ann­ars meðan verðbólgu­vænt­ing­ar séu enn of háar. Hann seg­ist hins veg­ar eiga von á að með lækk­un verðbólg­unn­ar muni vænt­ing­ar ýt­ast niður. „Það er að ein­hverju leyti for­senda til þess að við get­um líka farið að slaka á raun­vaxtaaðhaldi.“

Því þurfi verðbólgu­vænt­ing­arn­ar að aðlag­ast verðbólgu­mark­miði bank­ans og nefnd­in sjái var­an­lega festu þar á.

Óljós áhrif tolla­stríðs á verðbólgu

Þegar kom að stöðunni er­lend­is sagði Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, vara­seðlabanka­stjóri pen­inga­stefnu, enn óvíst hver áhrif­in af þeirri þróun gætu orðið hér.

„Það er ljóst miðað við það sem er búið að ger­ast að horf­urn­ar hafa versnað ef afþessumu tolla­hækk­un­um verður og ef þær verða viðvar­andi gæti það versnað meira. Það hef­ur auðvitað áhrif hér eins og Ásgeir nefndi með út­flutn­ings­horf­urn­ar okk­ar. Erfiðar era að segja með verðbólg­una hvort þetta hef­ur áhrif til að auka hana eða minnka. Ég held að viðverðumm bara að sjá hvernig þetta verður út­fært og hvort af þessu verður áður en við tjá­um okk­ur mikið um það,“ sagði Þór­ar­inn.

Tók hann fram að bank­inn væri að fylgj­ast náið með þessu og að vinna grein­ingu sem yrði birt í maíhefti Pen­inga­mála.

Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, á fundinum í morgun.
Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, vara­seðlabanka­stjóri pen­inga­stefnu, á fund­in­um í morg­un. mbl.is/​Karítas

Um­mæli úr hag­fræðitíma rifjuð upp

Var Ásgeir þá spurður út í um­mæli í hag­fræðitíma sem hann kenndi fyr­ir margt löngu í há­skól­an­um og hvort mögu­legt væri að tolla­stríð á heimsvísu gæti haft þau áhrif í þriðja landi eins og Íslandi að verðbólguþrýst­ing­ur minnki.

Sagði Ásgeir áhrif­in geta verið mjög flók­in þegar kæmi að Íslandi.

Nefndi hann sem dæmi að toll­ar Banda­ríkj­anna á ál væru að valda því að verð á áli til Evr­ópu væri mögu­lega að lækka þar sem fyr­ir­tæki væru frek­ar að flytja inn ál þangað ef Banda­rík­in lokuðu sig af. En það gæti líka leitt til þess að ákveðnar vör­ur eins og banda­rísk­ir bíl­ar hækki í verði.

Eitt land komið með þessa stefnu­mörk­un

Sagði Ásgeir mestu skipta að sjá hvernig önn­ur lönd bregðist við.

„Það er eitt land, Banda­rík­in, sem er komið með þessa stefnu­mörk­un, að nota tolla og girða sig af. Hvernig ætla hinir hlut­ar heims­ins að bregðast við? Banda­rík­in eru ekki all­ur heim­ur­inn. Ef viðbrögð annarra landa verða þannig að leggja hefnd­artolla á Banda­rík­in, en ekki að fara að at­ast í hver öðrum með toll­um, þá kann að vera að áhrif­in verði að Banda­rík­in ein­angri sig frá alþjóðakerf­inu, en að það haldi svo bara áfram.“

Sagði hann þetta geta valdið hliðrun, t.d. að Kan­ada fari að flytja út vör­ur í aukn­um mæli til Evr­ópu.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert