Framsóknarflokkurinn í Reykjavík hefur bætt við sig fylgi samkvæmt nýrri könnun Gallup fyrir Ríkisútvarpið. Fylgi flokksins mælist nú með 5,3% og er nálægt því að ná inn borgarfulltrúa á kostnað áttunda fulltrúa Sjálfstæðisflokks.
Fylgi Sjálfstæðisflokks mældist í dag 46% og fær flokkurinn 8 fulltrúa samkvæmt könnuninni. Fylgi Samfylkingar mælist 26% og fær flokkurinn 4 fulltrúa. Fylgi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs mælist tæp 15% í dag og fær 2 fulltrúa, fylgi Frjálslynda flokksins mælist rúm 7% sem nægir til að fá einn borgarfulltrúa og Framsóknarflokkurinn 5,3%.
Útvarpið hafði eftir Gallup, að næsti maður inn væri fulltrúi Framsóknarflokks á kostnað 8. fulltrúa Sjálfstæðisflokks en 5. fulltrúi Samfylkingar væri einnig skammt undan.
Gallup kannar fylgi flokkanna í Reykjavík daglega fram að kosningum. Úrtakið er alltaf 800 manns, 400 fyrstu detta út og 400 nýir bætast við á hverjum degi. Þannig er hægt að mæla hreyfingu á fylginu.
Í gær mældist fylgi Sjálfstæðisflokksins 47%, 45% á mánudag og mældist 43% á sunnudag. Fylgi Samfylkingarinnar mældist 25% í gær, rúm 27% á mánudag en var 32% í könnun Gallup á sunnudag. Vinstrihreyfingin-grænt framboð mældist með 16% fylgi í gær, tæplega 15% fylgi á mánudag en var með 11% á sunnudag. Fylgi Frjálslynda flokksins mældist tæp 7% í gær, 8,1% á mánudag og um 10% í sunnudag. Framsóknarflokkurinn var með 4,7% fylgi í könnuninni í gær, 4,2% á mánudag og 3,9 í könnun á sunnudag.