Staðan í Reykjavík breyttist lítið þegar lokatölur voru birtar laust fyrir klukkan 2:30 í nótt. Sjálfstæðisflokkurinn fær 7 borgarfulltrúa, Samfylkingin fjóra, Vinstrihreyfingin-grænt framboð 2 og Frjálslyndi flokkurinn og Framsóknarflokkurinn 1 fulltrúa hvor. Enginn flokkur er því með meirihluta og því þurfa tveir eða fleiri flokkar að semja um að mynda meirihluta.
Alls kusu 66.037 í Reykjavík af 85.614, sem voru á kjörskrá sem er 77,13% kjörsókn. Er þetta mun minni kjörsókn en fyrir fjórum árum en þá kusu 84,02% þeirra sem voru á kjörskrá.
B-listi Framsóknarflokks fékk 4056 atkvæði, 6,1% og einn borgarfulltrúa, Björn Inga Hrafnsson. D-listi Sjálfstæðisflokks fékk 27.823 atkvæði, 42,1% og sjö borgarfulltrúa, þau Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Gísla Martein Baldursson, Kjartan Magnússon, Júlíus Vífil Ingvarsson, Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur og Jórunni Ósk Frímannsdóttur Jensen. S-listi Samfylkingar fékk 17.750 atkvæði, 27,3% og 4 borgarfulltrúa: Dag B. Eggertsson, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Stefán Jón Hafstein og Björk Vilhelmsdóttur. F-listi Frjálslyndaflokksins fékk 6525 atkvæði og 1 borgarfulltrúa, Ólaf F. Magnússon, og Vinstrihreyfingin-grænt framboð fékk 8739 atkvæði, 13,5% og 2 borgarfulltrúa, Svandísi Svavarsdóttur og Árna Þór Sigurðsson.
Auðir seðlar og ógildir voru 1145.