Nýr meirihluti á Höfn

Samkomuleg náðist í dag milli Framsóknarflokks og Samfylkingar um myndun meirihluta í sveitarfélaginu Hornafirði. Ákvörðun um bæjarstjóra liggur ekki fyrir, en á næstu dögum skýrast þau mál, að sögn oddvita framboðanna.

Fram kemur á fréttavefnum horni.is, að Reynir Arnarson, oddviti framsóknarmanna, verður formaður bæjarráðs og Árni Rúnar Þorvaldsson, oddviti Samfylkingarinnar, verður forseti bæjarstjórnar. Um mitt kjörtímabil skipta þeir um embætti. Eftir er að leggja lokahönd á málefnasamning en búið er að skipta formennsku í nefndum á milli flokkanna.

Framsóknarmenn munu fara með formennsku í menningarmálanefnd, hafnarstjórn, skólanefnd, umhverfisnefnd og atvinnumálanefnd. Formenn húsnæðisnefndar, félagsmálanefndar, æskulýðs- og tómstundaráðs, bygginga- og skipulagsnefndar og heilbrigðis- og öldrunarráðs koma frá Samfylkingunni.

Um mitt kjörtímabil munu flokkarnir skipta um formennsku í menningarmálanefnd og heilbrigðis- og öldrunarráði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert