Ólafur Hannibalsson hefur, fyrir hönd Þjóðarhreyfingarinnar, lagt fram kæru vegna framkvæmdar atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í kosningunum í Reykjavík síðastliðinn laugardag.
„Í fyrsta lagi er kært til ógildingar kosninganna samkvæmt 94. grein sveitastjórnarlaga númer 5, 1998. Ef ekki verður orðið við því er þess krafist, að kærunefnd verði skipuð af sýslumanni og að hún kanni framkvæmd utankjörstaðaratkvæðagreiðslu í Reykjavík," sagði Ólafur í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Ólafur sagði einnig að gerð hefði verið sjálfstæð krafa um dóms- og lögreglurannsókn á því „hvort að í þessum kosningum hafi átt sér háttsemi sem feli í sér brot á lögum um sveitastjórnarkosningar".
Ólafur sagðist hafa fengið geysilega miklar vísbendingar frá fólki um að hópum af nýbúum hafi verið smalað í rútur og þeir fengið aðstoð, sem gekk ansi langt og jafnvel greiðslur fyrir að greiða Framsóknarflokknum í Reykjavík atkvæði utan kjörfundar þrátt fyrir að þeir yrðu staddir í borginni á kjördag.
„Við nefnum sérstaklega einn mann, sem var 19. maður á lista Framsóknarflokksins," sagði Ólafur.
Ólafur segir að tillagan um að leggja fram kæruna í nafni Þjóðarhreyfingarinnar hafi verið lögð fram á fundi síðast liðinn miðvikudag og hafi hún verið samþykkt einróma af öllum fundarmönnum.