Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Kópavogs, hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar.
Ármann, sem er stjórnmálafræðingur að mennt, hefur tekið þátt í stjórnmálum um alllangt skeið. Hann hefur verið bæjarfulltrúi í Kópavogi frá 1998 og gegnt formennsku í skólanefnd og skipulagsnefnd bæjarins auk þess að sitja í fjölda annarra nefnda á vegum Kópavogsbæjar og stjórnvalda.
Í landsmálum hefur hann öðlast reynslu og yfirsýn sem aðstoðarmaður ráðherra í samgöngu-, sjávarútvegs- og fjármálaráðuneyti á síðastliðnum 11 árum. Þá stofnaði Ármann eigið fyrirtæki 1991 og hefur tekið þátt í rekstri þess síðan, að því er segir í tilkynningu.