Guðmundur Hallvarðsson, alþingismaður og formaður samgöngunefndar Alþingis, hefur ákveðið að láta af þingmennsku í lok þessa kjörtímabils. Guðmundur hefur setið á Alþingi í fjögur kjörtímabil, sem einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
„Mér finnst tími til kominn að láta af þingmennsku eftir 16 ára setu á Alþingi, enda hef ég komið all mörgum málum sem ég hef unnið fyrir sjómannastéttina og eldri borgara þessa lands í góðan farveg," að því er segir í tilkynningu.
Guðmundur hefur allt frá árinu 1972 sinnt málefnum sjómanna og launþega, auk þess verið í fararbroddi þeirra sem byggt hafa upp þjónustu Hrafnistu-heimilanna. Hann lauk farmannaprófi fá Stýrimannaskólanum árið 1966 og stundaði sjómennsku í mörg ár. Guðmundur var starfsmaður Sjómannafélags Reykjavíkur 1972-1991, hefur setið í stjórn þess frá 1972 og var formaður félagsins 1978 til 1994. Hann hefur setið í stjórn Fulltrúaráðs sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði frá 1984 og verið stjórnarformaður frá 1993; jafnframt sem hann hefur verið formaður Hrafnistu-heimilanna og Happdrætti DAS, samkvæmt tilkynningu.
Guðmundur hefur setið í fjölda nefnda og ráða fyrir Sjálfstæðisflokkinn og í mörgum þingnefndum sem þingmaður Reykvíkinga. Hann var í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins 1982 – 1994 og Hafnarstjórn 1986-1994.
Þegar hann kveður Alþingi næsta vor, hyggst hann alfarið snúa sér að uppbyggingu og þjónustu Hrafnistu, en hún starfrækir fjögur heimili; í Reykjavík, Hafnarfirði, á Víflsstöðum og Víðinesi. Sjómannsdagsráð er nú með áform um að byggja nokkur ný heimili í náinni framtíð þar á meðal í Kópavogi og Garðabæ.