„Ég er auðvitað mjög ánægður, fyrst og fremst fyrir hönd flokksins með hvað prófkjörið tókst vel og hve þátttakana var mikil. Svo get ég ekki verið annað en mjög ánægður fyrir mína hönd, ég fæ góða kosninga og vil færa öllu stuðningsfólki mínu kærar þakkir fyrir stuðninginn," sagði Kristján L. Möller við Morgunblaðið þegar niðurstaðan lá fyrir.
Aðspurður kvaðst Kristján ánægður með niðurstöðu prófkjörsins. „Þetta er hin lýðræðislega niðurstaða og allir verða að vera kátir með hana," sagði Kristján.
Segir úrslitin vonbrigði
Benedikt Sigurðarson, sem einnig sóttist eftir fyrsta sæti á listanum, var ekki eins ánægður og Kristján, en hann var ekki í einu efstu sætunum þremur sem voru bindandi. Hann sagði úrslitin vissulega vonbrigði, en bætti við: „Ég get alveg viðurkennt að þegar maður sér hvernig skráning í flokkinn skiptist þá kemur það ekki beinlínis á óvart þó niðurstaðan verði í þessa veru," sagði hann.
Þegar Benedikt var spurður hvað hann ætti við svaraði hann: „Bókstaflega það að þátttaka í þessum kosningum og skráning í flokkinn skiptist mjög á milli byggðarlaga og það er alveg greinilegt að Fjallbyggð og Fjarðarbyggð hafa gríðarlega mikið vægi í félaginu. Það er alveg skýrt."
Þess má geta að Kristján L. Möller eru úr Siglufirði, sem nú er hluti Fjallabyggðar, og Einar Már Sigurðarson, alþingismaður sem varð í 2. sæti prófkjörsins er úr Fjarðarbyggð.
Þegar Benedikt var spurður hvort hann væri að gefa í skyn að þingmennirnir tveir hefðu smalað óeðlilega mörgum í flokkinn fyrir prófkjörið svaraði hann: „Ég er að segja það að þeir hafa vægi og það skilar sér."
Benedikt var einnig ósáttur við aðferðina í prófkjörinu; hann vildi hafa prófkjörið opið eins og hjá flokknum í öðrum kjördæmum. Kristján L. Möller svaraði gagnrýni Benedikts á þann hátt, fyrst varðandi aðferðina, að kjördæmisþing hefði ákveðið aðferðina, sem væri sú sama og síðast og þá hefði hún tekist vel. „Og það að við fáum 70% þátttöku sýnir að þetta er ágætis aðferð." Varðandi fjöldann sagði Kristján að um 2.000 félagar hefðu verið skráðir þegar gengið var til leiks, þeim hefði fjölgað um 750-800 fram að prófkjöri "og það kemur alls staðar að úr kjördæminu. Ég get bara sagt að í húsi okkar eru margar vistarverur og allir velkomnir, og það er hlutverk okkar frambjóðenda og flokksmanna að fjölga félögum sem mest og það hef ég alltaf haft að leiðarljósi, hvort sem er í kosningum, prófkjöri eða öðru."