Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi vegna alþingiskosninganna í vor fer fram á laugardaginn kemur. Kosið er á 23 stöðum í kjördæminu sem tekur yfir allt Suðurland frá Reykjanesi til Hafnar á Hornafirði og eru kjörstaðir víðast hvar opnir frá kl. 9 til 20, en gert er ráð fyrir að fyrstu tölur geti legið fyrir um tíuleytið um kvöldið.
Samtals gefa þrettán manns kost á sér á framboðslistann. Árni Mathiesen fjármálaráðherra sækist eftir efsta sætinu og Árni Johnsen, fyrrverandi alþingismaður, sækist eftir að vera í fremstu víglínu. Þrjú sækjast eftir 2. sæti á listanum, alþingismennirnir Drífa Hjartardóttir og Kjartan Ólafsson og Kristján Pálsson, fyrrverandi alþingismaður. Guðjón Hjörleifsson alþingismaður sækist eftir 2.-3. sætinu og eftir 3.-4. sætinu sækjast Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, Gunnar Örn Örlygsson alþingismaður og Kári H. Sölmundarson sölustjóri. Grímur Gíslason framkvæmdastjóri sækist eftir 3.-5. sætinu, Helga Þorbergsdóttir hjúkrunarfræðingur sækist eftir 4. sætinu, Unnur Brá Konráðsdóttir sveitarstjóri sækist eftir 5. sætinu og Birgitta Jónsdóttir Klasen náttúrulæknir sækist eftir 5.-6. sætinu.