Margir ráku eflaust upp stór augu þegar þeir sáu auglýsingu frá Árna Johnsen í Morgunblaðinu í dag, en þar er mynd af ástralska leikaranum Russel Crowe á meðal mynda af stuðningsmönnum Árna. „Já ég rak líka augun í þetta,“ segir Árni, sem segist ekkert hafa haft með málið að gera. „Ég hélt fyrst að þetta væri sjómaður úr Grindavík, en svo sá ég að þetta var Gladiator-gæinn,“ segir Árni og bætir því við að auglýsingahönnuðir beri ábyrgð á spauginu. „Já þetta er bara húmor hjá þeim sem settu auglýsinguna upp“.
Árni vill þó meina að þeir félagar eigi ýmislegt sameiginlegt. „Hann er náttúrulega eyjamaður því hann er Ástrali,“ segir Árni, sem eins og margir vita er úr Vestmannaeyjum. Þá segir Árni að sér þyki Crowe góður leikari. „Já ég er rosalega hrifinn af honum og ég hafði rosalega gaman af Gladiator“.
Árni býður sig fram í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi sem fram fer á morgun. Hann segir að baráttan gangi vel. „Já það er bara léttur taktur í þessu,“ segir Árni og bætir því við að hann sé bjartsýnn á góð úrslit. „Ég er alltaf bjartsýnn“.