Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, segir á heimasíðu sinni í dag, að í prófkjöri Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi hafi verið kosið annars vegar um stefnu, sem leiði til áframhaldandi stjórnarsamstarfs við Sjálfstæðisflokkinn, ef ríkisstjórnin heldur velli í komandi alþingiskosningum, og hins vegar um áherslur sem kalli eftir breyttri stjórnarstefnu með manngildið ofan auðgildi.
„Niðurstaðan er skýr að því leyti að kosin er óbreytt vegferð flokksins og þeir sem dyggilega hafa fylgt henni eru valdir í möguleg þingsæti. Það er valin áfram hægri Framsókn. Það er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að hlíta niðurstöðunni. Hinir sem fylgja sjónarmiðunum, sem ég hef talað fyrir innan flokksins, hljóta að virða úrslitin en líkast til halda sér til hlés," segir Kristinn. Hann endaði í 3. sæti í prófkjörinu, sem þýðir væntanlega að hann fellur af Alþingi.
Kristinn segir að hann hafi fengið um 40% atkvæða í 1. sætið í prófkjörinu. „Menn skyldu varast að gera lítið úr þeim pólitíska styrk sem þessi niðurstaða gefur. Hún þýðir að mikill stuðningur er við mín sjónarmið innan Framsóknarflokksins og reyndar ekki mikið minni en við þau sem urðu ofan á í prófkjörinu," segir Kristinn.