Iðrast af djúpri einlægni og biðst fyrirgefningar

Árni Johnsen.
Árni Johnsen.

Í tilefni ummæla sem ég viðhafði í fréttaviðtali í sjónvarpinu fyrir skömmu í kjölfar úrslita prófkjörs sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi er mér ljúft og skylt að taka það skýrt fram að orðalag mitt um tæknileg mistök varðandi þann þátt sem fór úrskeiðis í hlutverki mínu fyrir byggingarnefnd Þjóðleikhússins á sínum tíma var bæði illa valið og óviðeigandi í þessu samhengi. Ég var beðinn um viðtal vegna úrslita prófkjörsins, en fékk fyrst óvænt spurninguna " Hefurðu iðrast nóg"? Það er erfitt að svara þessu fullnægjandi óvænt. Líklega hefði ég átt að svara að vonandi hefði ég iðrast nóg, því hver kann að meta slíkt að lokum nema Guð almáttugur. Með þessu orðalagi var ekki ætlun mín að draga úr alvöru málsins, nema síður sé. Þetta er reyndar orð sem ég nota stundum ekkert síður um mannleg mistök en önnur. Ég skil vel að í gegnum þessi tvö orð gætu menn lesið að það skorti á iðrun.

Í viðtalinu lagði ég hins vegar áherslu á það að í svona stöðu biður maður fyrirgefningar og iðrast, "annars væri maður af steini", minnir mig að ég hafi sagt.

Ég hef alltaf sagt það að ég ber einn ábyrgð á þeim mistökum sem ég hef sjálfur gert og hef ekkert dregið undan í þeim efnum. Í upphafi þessa máls fyrir liðlega fjórum árum baðst ég fyrirgefningar og tjáði iðrun mína í fréttatilkynningu til allra fjölmiðla. Oft síðan, til að mynda eftir að dómur féll, gerði ég það sama og reyndar einnig í ávarpi í Hæstarétti. Einnig hef ég áréttað iðrun og ósk um fyrirgefningu bæði í ræðu og riti og í bænum mínum því sá sem lendir í slíkum hremmingum lifir að mínu mati ekki af nema að hann iðrist og njóti fyrirgefningar og þess vegna bið ég þjóð mína þess. Öllum sem orðið hefur á er lífsnauðsynlegt að gera upp mistökin og ég hef gert mitt besta í þeim efnum. Ég hef lokið öllum skyldum sem á mig voru settar vegna þessa máls og er reynslunni ríkari.

Íbúar Suðurkjördæmis þekkja mig. Þeir hafa fylgst með mér og veitt mér að nýju tækifæri með afgerandi kosningu til þess að vinna af alefli fyrir þá. Fyrir það er ég óumræðilega þakklátur.

Ég braut af mér og iðrast í dýpstu rótum hjarta míns. Það er fullkomlega eðlilegt og skylt að menn biðjist fyrirgefningar þegar þeir brjóta af sér, og iðrist af einlægni, það geri ég.

Höfundur er stjórnmálamaður, blaða- og tónlistarmaður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert