Ummæli Þorgerðar voru „afar óheppilegt inngrip"

Arnbjörg og Kristján Þór ræðast við eftir beina sjónvarpsútsendingu í …
Arnbjörg og Kristján Þór ræðast við eftir beina sjónvarpsútsendingu í gærkvöldi, en þar gagnrýndi hann varaformann flokksins. mbl.is/Skapti
Eftir Skapta Hallgrímsson skapi@mbl.is Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, verður í fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi þegar kosið verður til Alþingis næsta vor. Hann sigraði í prófkjöri flokksins um helgina en Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður lenti í öðru sæti. Kristján Þór gagnrýndi í gærkvöldi „afar óheppilegt inngrip" varaformanns flokksins, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, á lokaspretti kosningabaráttunnar.

Niðurstaða prófkjörsins var kynnt á Hótel KEA á Akureyri í gærkvöldi. Þrír sóttust eftir fyrsta sæti, Kristján, Arnbjörg og Þorvaldur Ingvarsson sem varð í fjórða sæti, en nýliðinn, Ólöf Nordal, verður í þriðja sæti á listanum.

„Mér fannst þetta afar óheppilegt inngrip inn í annars mjög heiðarlega og drengilega kosningabaráttu," sagði Kristján Þór við Morgunblaðið eftir að síðustu tölur höfðu verið birtar í gærkvöldi, og vísaði þar til ummæla varaformannsins fyrir helgina þar sem Þorgerður Katrín lagði áherslu á mikilvægi góðs gengis kvenna í prófkjörum og Kristján dró ekki dul á að hann túlkaði ummælin sem stuðningsyfirlýsingu við Arnbjörgu.

Kristján gagnrýndi ummæli Þorgerðar Katrínar fyrst í beinni útsendingu á Stöð 2, eftir að tölur voru birtar í annað skipti af þremur. „Ég brást ekkert illa við," sagði hann aðspurður í gærkvöldi. „Ég fékk spurningu og svaraði henni bara eins og ég er vanur. Ég hef ekki áhuga á því að menn eigi neitt inni hjá mér; mér finnst miklu betra að koma heiðarlega fram."

Kristján Þór sagði að sér hefðu borist mjög hörð viðbrögð við ummælum Þorgerðar Katrínar víða að úr kjördæminu. „Það var alveg greinilegt að mönnum þótti þetta miður og því vildi ég koma til skila."

Arnbjörg Sveinsdóttir sagðist í gær ekki skilja „upphlaup" bæjarstjórans því varaformaðurinn hefði einungis verið að benda á það grundvallaratriði að ákveðin breidd þyrfti að vera á framboðslistum.

Spurður um það hvort hann hefði oftúlkað ummæli varaformannsins sagði Kristján: „Ef menn lesa þetta í rólegheitum geta þeir ekki komist að neinni annarri niðurstöðu en ég."

Þátttaka í prófkjörinu var 74%, á kjörskrá voru 4.089 og alls kusu 3.033. Sjálfstæðismenn fengu óvenju lítið fylgi í kjördæminu við síðustu kosningar og tvo menn kjörna en segjast ótrauðir stefna að þremur mönnum nú, jafnvel fjórum. Arnbjörg Sveinsdóttir lýsti sérstakri ánægju með að tvær konur væru á meðal þriggja efstu manna á listanum og þrjár á meðal efstu fimm. "Það er mjög gott veganesti inn í kosningabaráttuna."

Í hnotskurn
» Kristján Þór Júlíusson sigraði í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi vegna alþingiskoninganna í vor.
» Kristján segir „inngrip" Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns flokksins, á lokaspretti kosningabaráttunnar afar óheppilegt en Arnbjörg Sveinsdóttir segir ummæli varaformannsins eðlileg.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert