Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins í NV-kjördæmi hefur ákveðið að taka ekki sæti á lista flokksins við næstu alþingiskosningar. Ákvörðunin tilkynnti Kristinn formanni kjördæmasambands Framsóknarflokksins í NV-kjördæmi í dag. Kristinn lenti í þriðja sæti í prófkjöri flokksins í kjördæminu á síðasta ári.
Kristinn sagði í samtali við mbl.is að hann hefði ekki viljað taka neinar ákvarðanir um næstu skref fyrr en þessi ákvörðun lægi fyrir.
Segja mætti að hann hefði ekki tekið endanlega ákvörðun fyrr en í dag um að taka ekki þriðja sætið, „en ég hef verið að hugsa mig um síðan prófkjör var haldið og hef rætt við býsna marga, en endanleg ákvörðun var mín“, sagði Kristinn.
Í tilkynningu frá Kristni segir: „Á kjörtímabilinu hef ég verið gagnrýninn á ýmislegt sem flokkurinn hefur staðið að og ég tel að hafi vikið um of frá stefnu flokksins og vilja kjósenda hans. Þar má helst nefna einkavæðingu ríkisfyrirtækja í fákeppnisumhverfi, vaxandi misskiptingu í þjóðfélaginu sem útfærsla skattalækkana á kjörtímabilinu hefur aukið og viðvarandi áhuga- og árangursleysi í byggðamálum á stórum landssvæðum eins og nýlegar upplýsingar staðfesta.
Niðurstaða prófkjörsins í nóvember sl. er að meirihluta til stuðningur við þá stefnu sem rekin hefur verið undanfarin ár og möguleikar mínir til þess að hafa áhrif á hana úr 3. sæti listans verða enn minni en verið hafa til þessa. Tel ég ekki rétt að taka sæti á framboðslistanum í ljósi þess að ég mun halda ótrauður áfram að tala fyrir þeim sjónarmiðum sem fram á síðustu ár hafa verið ofan á í Framsóknarflokknum og er ágætlega lýst með kjörorðinu manngildi ofar auðgildi.
Frekari ákvörðun hef ég ekki tekið en fljótlega munu framtíðaráform mín skýrast.“