Töluverð umferð hefur verið í utankjörfundaratkvæðagreiðslu í prófkjöri Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi og töluvert er um að fólk hefur gengi í flokkinn. Kjörstaðir í prófkjörinu verða opnaðir klukkan 10 á morgun og hægt er að ganga í flokkinn til loka kjördags eigi fólk lögheimili í kjördæminu.
„Það er auðvitað grafalvarlegt þegar nánir samstarfsmenn takast á en ég er bjartsýnn og finn fyrir miklum stuðningi um allt kjördæmið og áhuga. Fólk vill að ég leiði listann sem ráðherra og varaformaður flokksins og á það legg ég áherslu," sagði Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, sem hefur verið á ferð og flugi um allt Suðurkjördæmi líkt og aðrir frambjóðendur í prófkjöri Framsóknarflokksins sem fram fer á morgun, laugardag. Guðni og Hjálmar Árnason, alþingismaður, bjóða sig báðir fram í efsta sæti listans.
Guðni notaði síðdegið til að koma við ásamt Margréti konu sinni í verslun Nóatúns á Selfossi og kaupa þorramat mitt í prófkjörsbaráttunni. Mikil örtröð var við kjötborð Nóatúns í allan dag og greinilegt að þorramaturinn er vinsæll. „Við seljum þetta í tonnum," sagði Bára Hafliðadóttir sem stýrir kjötborði Nóatúns.