Valdimar L. Friðriksson, alþingismaður, greindi frá því í þættinum Silfri Egils á Stöð 2 í dag að hann hafi ákveðið að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn.
Valdimar var 9. þingmaður Suðvesturkjördæmis, en greindi frá því í nóvember að hann hefði sagt sig úr þingflokki Samfylkingarinnar. Jafnframt sagði hann sig úr Samfylkingunni. Valdimar hefur því starfað utan flokka frá þeim tíma.
Valdimar hafnaði í 14. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi í nóvember og var þar með langt frá því að ná öruggu þingsæti. Hann kvaðst á þeim tíma vera ósáttur við prófkjör; þau séu í raun ólýðræðisleg og ekki besta leiðin til að velja frambjóðendur.