Magnús Þór Hafsteinsson, alþingismaður og varaformaður Frjálslynda flokksins, segist ætla að vera áfram í flokknum þótt hann tapi fyrir Margréti Sverrisdóttur í varaformannskjöri á landsfundi flokksins á laugardag. Hann gagnrýnir Margréti fyrir að gefa ekki skýr svör við sömu spurningu.
Magnús segir á bloggsíðu sinni, að sér þyki það óheppilegt að Margrét hafi ekki í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi viljað gefa það upp hvort hún yrði áfram í flokknum ef hún biði lægri hlut í varaformannskjöri.
Magnús segir að það sé ekki gæfulegt fyrir frambjóðanda sem sækist eftir umboði félaga sinna til að leiða stjórnmálaflokk, að hafa ekki skýra afstöðu til þess hver framtíðin verði fáist ekki „rétt" niðurstaða í kjörinu framundan. „Mér finnst það benda til að hún hafi ekki sterka sannfæringu fyrir því að framtíð hennar og flokksins fari saman, hvað þá að hún sé rétta manneskjan til að leiða hann," segir Magnús. Sjálfur segist hann hafa svarað sömu spurningu skýrt, að hann muni halda áfram að vera í flokknum og ætla að sækjast eftir því að fá umboð kjósenda til að komast inn á Alþingi aftur í vor.