Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sagði í setningarræðu á landsfundi flokksins í dag, að flokkurinn vildi ná þeirri stöðu eftir næstu alþingiskosningar að eiga aðild að ríkisstjórn. „Við viljum komast í þá stöðu að hafa áhrif og völd til þess að koma áherslum okkar að í stjórn landsins og löggjöf. Það mun verða gæfuspor Íslendinga fyrir framtíðina að skipta um ríkisstjórn í landinu," sagði Guðjón.
Hann sagði þingmenn flokksins vilja leggja sitt að mörkum til þess að hér verði tekið upp meira lýðræði og virkara jafnræði fólksins en nú er, eftir þau uppskipti auðs og afla á hendur fárra, sem ríkisstjórnin hefði valið til að njóta allsnægtanna.
„Ég vænti þess að stjórnarandstaðan felli ríkisstjórnina og fylgi eftir þeim ásetningi sínum að mynda nýja ríkisstjórn með aðrar áherslur en misskiptingarflokkarnir sem lengi, alltof lengi, hafa setið að völdum í landinu. Vænti þess að fólkið í Frjálslynda flokknum, sem hér er á þessum fundi, sé okkur sammála," sagði Guðjón.
500 nýir félagar á 50 dögum
Guðjón sagði, að á 50 dögum, frá 10. desember, hefðu hátt í 500 nýir flokksmenn gengið í Frjálslynda flokkinn þrátt fyrir að nokkur átök hafi verið innan flokksins um forystu.
„Við sem fyrir vorum verðum að veita því fólki sem gengið hefur til liðs við okkur viðtöku með jákvæðu hugarfari og nýta okkur krafta þess fólks sem vill vissulega fá að leggja hönd á plóg. Ég vænti þess að frjálslynd viðhorf verði viðmót okkar og að við kunnum og getum höndlað þann vanda og tekið á þeim vaxtarverkjum sem vissulega geta komið upp í ört stækkandi flokki," sagði hann.
Nauðsynlegt að stýra flæði erlendra nýbúa til landsins
Guðjón fjallaði um málefni innflytjenda í ræðunni, og sagði að Frjálslyndi flokkurinn leggði ríka áherslu á að fólki af erlendu bergi brotið, sem flytjist hingað til lands, verði gert kleift að finna sér hlutverk og aðlagast íslensku samfélagi. Tryggja þurfi, að ekki verði brotið á því fólki og því verði sýnd full virðing og réttindi virt.
Guðjón sagði, að nauðsynlegt hefði verið að bregðast betur við þeim miklu þjóðfélagslegu áskorunum sem fólust í því stóraukna streymi erlends vinnuafls hingað til lands, sem var fyrirsjáanlegt eftir 1. maí síðastliðinn, þegar lög um frjálsa för launafólks frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins var heimilað.
Guðjón sagði, að ekki væri verið að tala um að loka landinu eða reka fólk á brott, heldur eingöngu að leggja áherslu á, að sökum smæðar þjóðarinnar væri það okkur Íslendingum nauðsynlegt að stýra sjálf flæði erlendra nýbúa til landsins.
Meðal þeirra atriða, sem Guðjón nefndi voru að bregðast yrði sérstaklega við áhrifum frjáls flæðis erlends vinnuafls á vinnumarkaðinn sem leitt getur til lækkunar launa. Fylgjast þyrfti með fjölgun starfsmanna á vegum starfsmannaleiga. Herða yrði eftirlit með atvinnurekendum og óskráðum starfsmönnum, kjörum þeirra og búsetu. Unnið verði að því að staða þess starfsfólks sem þegar er komið til landsins verði könnuð, fjölskylduhagir og áform þeirra í næstu framtíð varðandi hugsanlega framtíðarbúsetu á Íslandi.
Þá sagði Guðjón, að Frjálslyndi flokkurinn beldi brýnt að kannað verði hvort þeir, sem vilji setjast hér að um lengri eða skemmri tíma, hafi hugsanlega sakaferla. Þá þyrftu heilbrigðisyfirvöld að vera á varðbergi varðandi smitsjúkdóma eins og berkla.
Guðjón benti á, að samkvæmt ákvæðum í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið gæti íslenska ríkið gripið einhliða til viðeigandi öryggisráðstafana, ef upp kæmu alvarlegir, efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum.
Kosningar í embætti á morgun
Á morgun fer fram kosning í helstu embætti flokksins. Guðjón Arnar er einn í framboði til formanns. Magnús Þór Hafsteinsson og Margrét Sverrisdóttir hafa boðið sig fram í embætti varaformanns og fimm konur, þær Kolbrún Stefánsdóttir, Ásgerður Jóna Flosadóttir, Guðrún María Óskarsdóttir, Sólborg Alda Pétursdóttir og Hanna Þrúður Þórðardóttir, hafa boðið sig fram í embætti ritara.