Helga Sigrún Harðardóttir, skrifstofustjóri í Reykjanesbæ, er í 3. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Þetta var ákveðið á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi sem haldið var í dag á Hótel Selfossi. Helga Sigrún, sem er skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins, tók ekki þátt í prófkjöri flokksins um síðustu helgi en Hjálmar Árnason, alþingismaður, sem lenti í þriðja sæti, þáði ekki sætið.
Á þinginu komu fram tvær tillögur, að því er kemur fram á fréttavefnum Suðurlandi.is. Annarsvegar um að Helga Sigrún skipaði sæti Hjálmars og hinsvegar um að Eygló Harðardóttir sem lenti í fjórða sæti yrði færð upp. Kosið var milli þessara tveggja tillagna og var naumur meirihluti fyrir því að Helga Sigrún hlyti sæti Hjálmars.
Framboðslistinn er eftirfarandi:
- Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra, 57 ára, Árborg
- Bjarni Harðarson, bóksali, 45 ára, Árborg
- Helga Sigrún Harðardóttir, skrifstofustjóri, 37 ára, Reykjanesbæ
- Eygló Harðardóttir, framkvæmdastjóri, 34 ára, Vestmannaeyjum
- Elsa Ingjaldsdóttir, framkvæmdastjóri, 40 ára, Árborg
- Lilja Hrund Harðardóttir, búfræðingur, 34 ára, Hornafirði
- Brynja Lind Sævarsdóttir, flugöryggismaður, 31 árs, Reykjanesbæ
- Kjartan Lárusson, sauðfjárbóndi og nemi, 51 árs, Bláskógabyggð
- Gissur Jónsson, grunnskólakennari, 30 ára, Árborg
- Bryndís Gunnlaugsdóttir, laganemi, 26 ára, Grindavík
- Ólafur Elvar Júlíusson, byggingatæknifræðingur, 48 ára, Rangárþingi ytra
- Agnes Ásta Woodhead, þjónustufulltrúi, 32 ára, Garði
- Guðni Sighvatsson, nemi í íþróttafræðum, 26 ára, Rangárþingi ytra
- Agnes Lára Magnúsdóttir, söluráðgjafi, 40 ára, Reykjanesbæ
- Lára Skæringsdóttir, hárgreiðslumeistari, 37 ára, Vestmannaeyjum
- Ásta Berghildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri, 43 ára, Ásahrepp
- Anna Björg Níelsdóttir, skrifstofumaður, 38 ára, Ölfusi
- Auður Jóna Sigurðardóttir, bóndi, 48 ára, Rangárþingi Eystra
- Elín Einarsdóttir, kennari/sveitarstjórnarmaður, 40 ára, Mýrdalshreppi
- Hjálmar Árnason, alþingismaður, 56 ára, Reykjanesbæ.