Segir 130 manns hafa skráð sig úr Frjálslynda flokknum

eftir Önnu Pálu Sverrisdóttur

aps@mbl.is

MARGRÉT Sverrisdóttir sagðist í gærkvöldi vita persónulega um 130 manns sem örugglega hefðu skráð sig úr Frjálslynda flokknum eftir að hún sjálf skráði sig úr honum.

Spurður um úrskráningar sagði framkvæmdastjóri flokksins, Magnús Reynir Guðmundsson, að ekki hefði gefist tími í gær til að taka þær saman vegna undirbúnings fyrir miðstjórnarfund flokksins í gærkvöldi. "Það bættist eitthvað við," sagði Magnús Reynir. "Ekki mikið, en eitthvað." Formaðurinn Guðjón A. Kristjánsson ítrekaði fyrri orð sín á þá leið "að eitthvað hlyti að tínast úr flokknum". Svo mikið hefði verið smalað í flokkinn fyrir landsþing að eðlilegt væri að einhverjar úrsagnir yrðu að landsþinginu loknu. "Þótt ekkert hefði komið fyrir, þá hefðu einhverjir farið."

Kosningar farið eðlilega fram

Miðstjórn Frjálslyndra fer með ákvörðunarvald í flokknum milli landsþinga og hittist hún á fundi klukkan hálfsex í gær. Fundurinn var langur, stóð í um þrjár og hálfa klukkustund.

Ragnheiður Fossdal, varamaður í miðstjórn, sagði sig úr flokknum á fundinum og úrsagnarbréf var lesið frá Ástu Þorleifsdóttur sem líka var varamaður í miðstjórn. Áður hefur einn varamaðurinn í viðbót, Sigurlín Margrét Sigurðardóttir varaþingmaður, sagt sig úr Frjálslynda flokknum. Ennfremur segja áreiðanlegar heimildir að einn stofnenda Frjálslynda flokksins, ráðherrann fyrrverandi Matthías Bjarnason, hafi ákveðið að yfirgefa Frjálslynda.

Magnús Reynir sagði að á miðstjórnarfundinum hefði eitt og annað verið rætt, en meðal annars framkvæmd kosninga á landsþinginu. Lögð hefði verið fram greinargerð kjörstjórnar. "Þeir telja að allt hafi farið eðlilega fram." Í opnu bréfi Ástu Þorleifsdóttur, dagsettu í gær, segist hún hins vegar hafa vel grundaðar ástæður til að efast um réttmæti og lögmæti kosninganna. Hún hafi komið að mörgum kosningum sem hlutlaus utanaðkomandi aðili og m.a. verið einn af hönnuðum rafræns kosningakerfis sem notað hafi verið í allmörgum kosningum. Við þessar kosningar hafi verið "þverbrotnar allar grundvallarreglur sem venju samkvæmt eru hafðar í heiðri við lýðræðislegar kosningar". Fullyrðinguna styður Ásta með röksemdafærslu í sjö liðum.

Óháður borgarfulltrúi

Aðspurður hvort miðstjórnin bregðist formlega við úrsögn Margrétar, sagði Guðjón Arnar: "Það er engu að bregðast við núna. Hún er búin að segja sig úr flokknum og engin óvissa um það lengur. Framkvæmdastjóra og þingflokki var bara falið að ræða við hana um mál, ef einhver eru, sem þarf að ganga frá okkar á milli."

Margrét tekur í dag við sem borgarfulltrúi af Ólafi F. Magnússyni sem er í tímabundnu leyfi. Hún verður óháður fulltrúi.

Í hnotskurn
» Einar Mar Þórðarson stjórnmálafræðingur og fleiri hafa sagt að fylgi Frjálslyndra muni að líkindum ekki dala mikið vegna úrsagnar Margrétar Sverrisdóttur. Það hafi fyrst rokið upp þegar umræður um innflytjendamál hófust hjá flokknum.
» Sjálf segir Margrét að það verði að koma í ljós í mælingum á fylgi á næstu mánuðum.
» Hún tekur við sem óháður borgarfulltrúi Reykvíkinga í dag.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert