Kristinn segir sig úr Framsóknarflokknum

Kristinn H. Gunnarsson.
Kristinn H. Gunnarsson. mbl.is/Þorkell

Kristinn H. Gunnarsson, alþingismaður, sagði sig í dag formlega úr Framsóknarflokknum og þar með þingflokki Framsóknarflokksins. Þá hefur hann óskað eftir því við heilbrigðisráðherra, að vera leystur frá störfum sem formaður stjórnar Tryggingarstofnunar ríkisins. Jafnframt segist Kristinn láta af stuðningi við ríkisstjórnina og muni skipa mér á bekk með stjórnarandstöðunni á Alþingi. Ætlar hann að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn og segist á næstu dögum munu ræða við forystumenn flokksins þar um.

Kristinn segir í yfirlýsingu, að hann hafi verið gagnrýninn á ýmislegt sem Framsóknarflokkurinn hafi staðið að á kjörtímabilinu og telji, að vikið hafi verulega frá hefðbundinni stefnu flokksins. Því megi helst lýsa þannig að manngildið hafi mátt þoka fyrir auðgildinu. Þá hafi fyrir utan uppbyggingu stóriðju hefur verið viðvarandi áhuga- og árangursleysi hjá forystu Framsóknarflokksins í málefnum landsbyggðarinnar og verði ekki séð að nokkurra breytinga til bóta sé að vænta.

Frjálslyndi flokkurinn sé að mörgu leyti með svipaðar áherslur og sé að finna í stefnuskrá Framsóknarflokksins og hafi markað sér stað sem frjálslyndur og umbótasinnaður flokkur milli þeirra flokka sem eru til hægri og vinstri í íslenskum stjórnmálum.

Kristinn hefur setið á Alþingi frá árinu 1991, fyrst fyrir Alþýðubandalagið, síðan utan flokka og síðan fyrir Framsóknarflokkinn. Hann endaði í 3. sæti í prófkjöri flokksins í Norðvesturkjördæmi nýlega.

Yfirlýsing Kristins er eftirfarandi:

    Fyrr í dag sagði ég mig formlega úr Framsóknarflokknum og þar með þingflokki Framsóknarflokksins. Um leið læt ég af trúnaðarstörfum fyrir flokkinn í þingnefndum og hef óskað eftir því við heilbrigðisráðherra að vera leystur frá störfum sem formaður stjórnar Tryggingarstofnunar ríkisins. Jafnframt læt ég af stuðningi við ríkisstjórnina og mun skipa mér á bekk með stjórnarandstöðunni á Alþingi.

    Ég hef verið gagnrýninn á ýmislegt sem flokkurinn hefur staðið að á kjörtímabilinu og tel að vikið hafi verulega frá hefðbundinni stefnu flokksins. Því má helst lýsa þannig að manngildið hafi mátt þoka fyrir auðgildinu. Ríkisfyrirtæki í fákeppnisumhverfi hafa verið einkavædd án þess að tryggja nægjanlega samkeppni eða viðunandi þjónustu, víðtækar skattalækkanir hafa verið framkvæmdar þannig að misréttið hefur fremur aukist en hitt, eins og viðvarandi óánægja með kjör aldraðra og öryrkja ber glöggt vitni um.

    Fyrir utan uppbyggingu stóriðju hefur verið viðvarandi áhuga- og árangursleysi hjá forystu Framsóknarflokksins í málefnum landsbyggðarinnar og verður ekki séð að nokkurra breytinga til bóta sé að vænta.

    Þegar við þetta bætist að Framsóknarflokkurinn vinnur gegn samþykktri stefnu í málefnum Ríkisútvarpsins með því að knýja fram hlutafélagavæðingu þess og fellur frá því að efna ákvæði stjórnarsáttmálans og eigin samþykktar um það að setja í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu þjóðareign, þá er lengra gengið en ég get unað við og læt því lokið samfylgd minni og flokksins.

    Við þessi tímamót vil ég færa fyrrum félögum mínum bestu þakkir fyrir samstarfið og óska þeim gæfu og gengis í framtíðinni. Innan Framsóknarflokksins eru margir sem hafa stutt dyggilega við bakið á mér á undanförnum árum, þótt því sé ekki á leyna að margir hafa þegar sagt skilið við flokkinn, þeim verð ég ævinlega þakklátur og vonast til þess að geta haldið áfram að vinna í þeirra þágu þótt á öðrum vettvangi verði.

    Framundan eru Alþingiskosningar og þar vil ég vinna að auknu jafnrétti, bættum kjörum aldraðara og öryrkja og sérstöku átaki til þess að styrkja byggð um land allt. Á næsta kjörtímabili verður það eitt af höfuðmálunum að vinna að því að arðurinn af auðlindum lands og sjávar verði nýttur í almannaþágu og bæti lífskjör fólks um land allt. Til þess að svo verði verður að fella núverandi ríkisstjórn frá völdum og það er höfuðábyrgð stjórnarandstöðunnar að mynda nýja ríkisstjórn, sem endurspeglar framangreindar áherslur.

    Allar mælingar sýna að því aðeins mun stjórnarandstaðan ná þingmeirihluta að Frjálslyndi flokkurinn fái góða kosningu. Stjórnarflokkarnir munu því beina spjótum sínum fyrst og fremst að honum. Þar liggja helstu átakalínur í stjórnmálunum fyrir þessar Alþingiskosningar.

    Frjálslyndi flokkurinn er að mörgu leyti með svipaðar áherslur og er að finna í stefnuskrá Framsóknarflokksins og hefur markað sér stað sem frjálslyndur og umbótasinnaður flokkur milli þeirra flokka sem eru til hægri og vinstri í íslenskum stjórnmálum.

    Ég hef ákveðið að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn og mun á næstu dögum ræða við forystumenn flokksins þar um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert