Samfylkingin býður samstarf um samþykkt nýrra jafnréttislaga

Þingflokkur Samfylkingarinnar er reiðubúinn til samstarfs við ríkisstjórn og aðra þingflokka til að tryggja samþykkt frumvarps til nýrra jafnréttislaga áður en Alþingi lýkur störfum síðar í þessum mánuði.

Þingflokkurinn skorar á aðra þingflokka að taka höndum saman um þessar jákvæðu og tímabæru umbætur í jafnréttismálum. Mörður Árnason, alþingismaður, átti af hálfu þingflokksins sæti í nefnd sem samdi frumvarpið sem kynnt var í gær, að því er segir í tilkynningu.

„Þingflokkur Samfylkingarinnar fagnar frumvarpsdrögum þeim sem endurskoðunarnefnd undir forystu Guðrúnar Erlendsdóttur hefur nú afhent félagsmálaráðherra. Í því felast ótvíræð skref fram á við í löggjöfinni, svo sem með ákvæðunum um afnám launaleyndar, bindandi úrskurði kærunefndar, virkar jafnréttisáætlanir í fyrirtækjum og stofnunum, sektarheimildir Jafnréttisstofu, um baráttu gegn kynbundnu ofbeldi og um kynjasamþættingu við stefnumótun og ákvarðanir, svo sem með jafnréttisumsögn með stjórnarfrumvörpum.

Minnt skal á að allir flokkar áttu fulltrúa í nefndinni sem falið var að endurskoða lögin um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna, og að þar var leitað álit fulltrúa kvennahreyfingarinnar og ýmissa hagsmunasamtaka. Ætla verður að fulltrúarnir hafi haft stuðning flokka sinna í starfinu og ætti því að vera kleift að vinna hratt og vel í þessu máli á Alþingi.

Samfylkingin lýsir sig reiðubúna að standa að samþykkt frumvarpsins á alþingi þegar í lok vorþings og skorar á aðra þingflokka að ganga strax til samstarfs um um þessar mikilsverðu umbætur í jafnréttismálum."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert