Fulltrúar Samfylkingar: Full yfirráð auk veiðiheimilda annars staðar

Össur Skarphéðinsson og Ágúst Ólafur Ágústsson, fulltrúar Samfylkingarinnar í Evrópunefndinni sem skipuð var til að kanna framkvæmd EES-samningsins, önnur tengsl Íslands og Evrópusambandsins, ítrekuðu vilja Samfylkingarinnar til að undirbúa aðildarviðræður Íslendinga við Evrópusambandið á blaðamannafundi nefndarinnar í dag. Sagði Össur það vera sitt mat á þeim upplýsingum sem nefndin hefði aflað að sjávarútvegsmálin þyrftu ekki að vera aðild Íslendinga sá Þrándur í Götu sem margir hefðu hingað til haldið fram.

Ágúst Ólafur sagði að reglur um tillit til sögulegrar veiðireynslu, efnahagsleg tengsl útgerðaraðila við það landsvæði sem liggur að umræddu hafsvæði og eftirlit aðildarríkja með sinni lögsögu myndu tryggja forræði Íslendinga yfir fiskimiðunum við Ísland og Össur bætti því við að það yrði síðan á valdi harðsnúinna samningamanna Íslendinga að tryggja þeim enn meiri veiðiheimildir annars staðar. Þá kváðust þeir telja að aðild gæti lækkað matvælaverð og vaxtakostnað á Íslandi verulega auk þess sem það myndi auðvelda verðsamanburð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert