Geir: Hægt að framlengja framfaraskeiðið

Geir H. Haarde flytur ræðu sína á Alþingi í kvöld.
Geir H. Haarde flytur ræðu sína á Alþingi í kvöld. mbl.is/Sverrir

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld, að efnahagur landsins stæði afar vel um þessar mundir og hægt væri að framlengja það framfaraskeið sem hér hefði ríkt undanfarin 12 ár um langt árabil ef rétt væri staðið að verki. En það væri einnig hægt að binda enda á það þannig að við taki stöðnun og verri lífskjör. Sagði Geir, að kjósendur verði að átta sig á því að raunveruleg hætta væri á myndun vinstristjórnar.

Geir sagði, að Vinstrihreyfingin-grænt framboð boðaði stopp á flestum sviðum, en stopp þýddi afturför, Samfylkingin boðaði frestun; það þýddi frestun á framförum og ótti við breytingar skilaði engu.

„Það verða ekki áframhaldandi framfarir í landinu ef stjórnmálamenn draga allan kjark úr fólki, segja að allt sé að fara á versta veg og hvetja athafnamenn til að halda að sér höndum. Verðmætin verða til í atvinnulífinu og það er lífsspursmál, að það fái að dafna og geti þannig bætt hag landsmanna. Þeir sem beint og óbeint leggja stein í götu framþróunarinnar í atvinnulífinu, eins og vinstriflokkar á Íslandi hafa alltaf gert, vinna gegn hagsmunum almennings," sagði Geir.

Geir ræddi um auðlindaákvæði í stjórnarskrá og sagðist leyfa sér að vona, að enn væri ráðrúm til að ná samstöðu um það ákvæði. Því miður hefði ræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, í umræðunni í kvöld ekki gefið mikla von um að það takist.

Þá sagði Geir að vel hefði tekist að vinna úr þeirri stöðu sem kom upp þegar Bandaríkjastjórn ákvað að flytja varnarliðið frá landinu. Varnarleg staða Íslands hefði verið tryggð eins og mögulegt væri og hefði það vakið eftirtekt víða meðal bandalagsþjóða Íslands. Íslenskar öryggisstofnunar hefðu verið styrktar. Þá staðfesti skýrsla Evrópunefndar, að Íslendingar hefðu verið á réttri leið í Evrópumálum og ekkert knýi á um breytingar á núverandi skipan, sem byggi á EES-samningnum.

Geir sagði einnig tímabært að Íslendingar legðu áherslu á þau tækifæri, sem gæfust í höfum í umhverfismálum en þjóðin hefði tækifæri til að ná afgerandi forustu á aðrar þjóðir í orkumálum og nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Sagði Geir, að umhverfismál væru miklu stærri málaflokkur en svo, að þau eigi aðeins að snúast um virkjanir og álver.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert