Ingibjörg Sólrún: Verkefni Samfylkingar að hlúa að börnum og öldruðum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Alþingi í kvöld.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir á Alþingi í kvöld. mbl.is/Sverrir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld að fregnir af vandræðum barna og unglinga væru algengar í íslensku samfélagi. Þannig hefðu á síðasta ári borist 4000 tilkynningar um áhættuhegðun, vímuefnaneyslu og afbrot barna og unglinga. Ísland hafi fjarlægst jafnaðarsamfélög nágrannaríkjanna í tíð núverandi ríkisstjórnar og verkefni Samfylkingar sé að bæta kjör aldraðra og barna.

Ingibjörg nefndi í upphafi boðaða breytingu á stjórnarskránni, þ.e. auðlindaákvæðið og sagði að sjónhverfingar hefðu verið á ferð í þinginu í því máli. Þar hefði stjórnarskráin verið höfð að leiksoppi og stjórnvöld, sem höguðu sér með þessum hætti, lítilsvirtu stjórnarskrána og þar með þjóðina.

Ingibjörg sagði ríkisstjórnina hafa gert margt ágætlega eins og allar ríkisstjórnir yfirleitt, ýmsar réttarbætur verið gerðar en vandinn væri þó sá að öll áhersla hafi verið lögð á viðskiptalífið en ekki þá sem búi við bágust kjör.

Ingibjörg sagði 400-600 aldraða ekki komast á hjúkrunarheimili og að 900 aldraðir búi á hjúkrunarheimilum en fái ekki sérherbergi. Uppræta þurfi biðlista fyrir aldraða að hjúkrun, bæta heimahjúkrun svo fólk geti búið heima hjá sér sem lengst og tryggja að aldraðir og öryrkjar geti unnið án skerðingar lífeyrisréttinda. Draga þurfi úr skattgreiðslum aldraðra af lífeyristekjum.

Þá sagði Ingibjörg Sólrún, að í kosningunum í vor verði kosið um framtíðina og hvaða flokkur hafi þá framsýni sem þarf, sé best í stakk búinn til að tryggja sem mestan jöfnuð lífskjara og hafi lausnir á mikilvægustu verkefnum stjórnmálanna. „Ég óttast ekki þann dóm," sagði Ingibjörg Sólrún og bætti við að Samfylkingin væri tilbúin til að taka við stjórnartaumunum og endurreisa velferðarkerfið á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert