Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn mun á næstunni safna efni af netinu varðandi alþingiskosningar 2007. Tekið verðurr afrit af vefsíðum sem geyma efni um kosningarnar og aðdraganda þeirra, svo sem umræður, greinaskrif og fleira. Efnið mun fara inn í sérstakt gagnasafn í Þjóðarbókhlöðu en verður ekki aðgengilegt strax. Síðar verður hins vegar opnaður leitaraðgangur að þessu efni.
Samkvæmt upplýsingum frá bókasafninu mun söfnunin fara þannig fram að bókasafnið safnar saman vefföngum sem tengjast kosningunum m.a. frambjóðenda og stjórnmálaflokka, af vefsetrum stjórnmálaflokkanna og verða þau notuð til þess að afrita viðkomandi síður. Þá eru frambjóðendur og áhugamenn um kosningarnar, sem reka vefsíður sem ekki tengjast vefsetrum stjórnmálaflokkanna beðnir um að láta safnið vita með því að senda þóst á netfangið: vefsafn@bok.hi.is.
Safnið hefur einnig það hlutverk samkvæmt lögum um skylduskil til safna að safna íslenskum vefsíðum. Slík söfnun fer fram þrisvar á ári og er umræddu efni komið fyrir í gagnasafni í Þjóðarbókhlöðu. Vefsöfnun vegna kosninganna er hins vegar mun nánari en sú söfnun og vefsíður afritaðar með fremur stuttu millibili, vegna hennar, til að ná þeim breytingum sem kunna að verða á þeim.