Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs (VG), sagði í eldúsdagsumræðum í kvöld að í alþingiskosningum í vor verði kosið um hvers konar samfélag menn vilji, norrænt velferðarsamfélag eða ekki. Eitt brýnasta verkefnið sé að ganga til viðræðna við aldraða og öryrkja og bæta þeirra hag, rjúfa kyrrstöðu í jafnréttismálum. VG muni ekki sætta sig við aðgerðaleysi og kynbundinn launamun og segi klámi og mansali stríð á hendur.
Steingrímur sagði að þjóðin mætti ekki bregðast skyldu sinni gagnvart náttúru landsins, hana verði að vernda. Fálki Sjálfstæðisflokksins væri orðinn að kamelljóni og vísaði Steingrímur þar til litabreytinga úr bláum í grænan. Fyrir fjórum árum hafi framsóknarmönnum þótt VG óalandi og óferjandi en viti ekki nú hvort VG séu fylgjandi öllu eða á móti öllu, með vísan til stóriðjuáforma þar sem framsóknarmenn segðu VG hafa stutt ýmis stóriðjuáform.
Þá sagði Steingrímur að endurheimta yrði Ríkisútvarpið. Nýjasti leiksoppurinn væri svo stjórnarskráin með auðlindaákvæðishugmyndum ríkisstjórnarinnar. Steingrímur varaði almenning við því að ríkisstjórnin myndi beita hræðsluáróðri fyrir kosningarnar, segja allt „fara í voll“ ef aðrir fengju stjórnartaumana, að stjórnarandstöðuflokkarnir muni aldrei geta unnið saman. Þetta segði ríkisstjórn sem væri sífellt að skipta út ráðherrum, væri nú komin á sinn þriðja forsætisráðherra á sama kjörtímabili.