Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 40,2% í nýrri könnun sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið. Er það nærri 6 prósentustigum meira en í síðustu könnun fyrir viku. Aðrir flokkar tapa fylgi samkvæmt könnuninni.
Fylgi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs mælist 25,7% nú en var 27,7% í könnun Capacent í síðustu viku. Fylgi Samfylkingarinnar mælist nú 20,6% en var 21,7% í síðustu viku. Fylgi Frjálslyndra mælist 4,8% nú en var 6,4% í síðustu viku. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 6,9% en var 8,5%. 1,9% segjast nú ætla að kjósa aðra flokka en 1,1% í síðustu viku.
Könnunin var gerð 8. til 13. mars 2007. Úrtakið var tilviljunarúrtak úr þjóðskrá. Í því voru 1820 manns 18-75 ára. Svarhlutfall var 61,3%.