Flestir nefna Vinstrihreyfinguna - grænt framboð og Samfylkinguna sem þá flokka sem þeir vilja helst sjá í tveggja flokka ríkisstjórn að loknum næstu alþingiskosningum í skoðanakönnun Capacent Gallup sem birt var í morgun. Þegar fólk var beðið um að nefna einn flokk sem það vildi helst sjá í ríkisstjórn nefndu hins vegar flestir Sjálfstæðisflokkinn.
Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna, segir niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Capacent Gallup vera skýra vísbendingu um það að kjósendur vilji ekki bara að rödd flokksins heyrist heldur að hann taki þátt í að mynda næstu ríkisstjórn.
Rúm 28% svarenda í könnuninni segjast helst vilja að mynduð verði ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna að loknum alþingiskosningum í vor. 24,2% nefndu áframhaldandi samstjórn núverandi stjórnarflokka en 22,4% sögðust helst vilja samsteypustjórn Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna. Fram kemur að afstaða stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins til samstarfsmöguleika er nokkuð mismunandi. 42,6% sögðust vilja samstarf við Framsóknarflokkinn en rúm 35% við VG.
Þá vekur það athygli að samkvæmt fylgiskönnun sem birt var í síðustu viku var VG langstærsti flokkurinn meðal kvenna og að samkvæmt niðurtöðunum sem birtar voru í morgun er flokkurinn sá flokkur sem flestar konur vilja helst sjá í ríkisstjórn.