Ómar Ragnarsson, formaður Íslandshreyfingarinnar-lifandi lands, telur að hægt sé að opna tvo eldfjallagarða hér á landi sem yrðu þá stærri en eldfjallagarður Hawaii og myndu skila landinu miklum tekjum með ferðamennsku. Ómar telur að skoða verði nýja virkjanatækni, bíða með frekari stóriðju og skapa þess í stað rými fyrir hátækni- og þekkingariðnað.
Þar nefnir hann Finnland sem dæmi og segir Finna fegna því að hafa ekki á sínum tíma farið út í virkjanaframkvæmdir, eins og til hafi staðið, heldur einblínt á hátækni- og þekkingariðnaðinn. Það hafi heldur betur skilað sér, til að mynda í tæknirisanum Nokia. Þetta kom fram á stofnfundi flokksins í dag.
Margrét Sverrisdóttir, varaformaður flokksins, sagði að auka yrði frelsi til samkeppni í landbúnaði, afnema miðstýrða mjólkurframleiðslu og veita smábátum aðgang að miðum til krókaveiða. Þá verði áhersla lögð á nýsköpun og að efla skapandi atvinnulíf í stefnuskrá flokksins. Margrét sagði að þó flokkurinn legði aðaláherslu á umhverfismál á fundinum í dag myndi hann leggja fram innan skamms fullmótaða stefnuskrá þar sem skýr stefna væri í öllum málaflokkum.
Jakob Frímann Magnússon situr einnig í sjö manna bráðabirgðastjórn flokksins og sagði hann á fundinum að flokkurinn ætti áherslur í umhverfismálum sameiginlegar með Vinstrihreyfingunni-grænu framboði en fátt annað. Til að mynda væri hann á móti hugmyndum um netlögreglu.
Framboðslisti flokksins hefur ekki verið birtur en hann hyggst bjóða fram í öllum kjördæmum fyrir Alþingiskosningar.