Áhersla á fjölbreyttar leiðir í málefnum barna og eldri borgara

Fulltrúar íslensku stjórnmálaflokkanna eru sammála um að átaks sé þörf …
Fulltrúar íslensku stjórnmálaflokkanna eru sammála um að átaks sé þörf í málefnum eldri borgara. AP

Fram kom a morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í morgun að stjórnmálaflokkarnir vilji leggja áherslu á fjölbreyttar leiðir bæði í skólastarfi og málefnum aldraðra þar sem nemendur, aldraðir og aðstandendur þeirra hafi val um það hvaða leiðir þeir vilji fara í þessum mikilvægu málaflokkur. Þó kom fram í máli Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns Vinstri grænna, að best væri að slíkt færi fram innan ramma hins opinbera. Þá lagði Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins á það áherslu að náið eftirlit verði áfram með slíkri starfsemi af hálfu hins opinbera.

Margrét Pála Ólafsdóttir, formaður sjálfstæðra skóla, sagði fjölbreytni í skólastarfi vera þann veruleika sem geti skapað velgengni á öllum sviðum. Íslendingar hafi hins vegar löngum verið tregir til að brjóta upp hefðbundin rekstrarform innan skólakerfisins. Líkti hún sjálfstæðum skólum við könnunarskútur sem með ferðum sínum safni upplýsingum og reyni nýjar leiðir komi allri skipalestinni til góða. Þá sagði hún valfrelsi foreldra í skólamálum mjög mikilvægt og einnig það að þar starfi einnig konur í forystu með ábyrgð og vald í sínum höndum í stað þess að vera vinnukonur kerfisins. Með hugmyndum sínum sé hún því í raun að krefjast kvenfrelsis þeirra sem vinna hin hefðbundnu kvennastörf.

Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns, sagði eldri borgara á Íslandi mjög ósátta við stöðu sinna mála á Íslandi í dag. Málefnum þessa hóps sé stjórnað af forsjárhyggju ríkisins án tillits til þess hversu hæfir þeir séu til að taka sínar eigin ákvarðanir. Sátt hafi ekki náðst á milli samfélagsins og stjórnvalda í þessum málaflokki undanfarna tvo áratugi og ríkið hafi ekki getað komið málum svo fyrir að séð sé sómasamlega um þá 3.000 aldraða sem þurfi mest á aðstoð að halda. Kosningaloforð hafi fram til þessa ekki náð fram að ganga og traust eldri borgara sé löngu brostið. Þá sagði hún aðbúnað aldraðra algerlega óviðunandi og þörf á risaskrefum í þessum málum. Ekki sé ásættanlegt að einn aldursflokkur sitji eftir óafskiptur í góðærinu.

Geir H Haarde forsætisráðherra sagði valfrelsi mikilvægt í skólastarfi og að hann væri hlynntur því að auka samkeppnisvitund innan skólastarfsins. Ekki mætti þó gera lítið úr því sem fyrir væri. Þá sagði hann Íslendinga hafa verk að vinna í málefnum eldri borgara. Nauðsynlegt sé að auka fjölbreytni í úrræðum en umræðan megi þó ekki snúast um form fremur en ekki efni.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði öll tæki vera til staðar til að fylgjast með gæðum og áreiðanleika menntunar í einkageiranum en auk þess sem tryggja verði gæði menntunar verði að tryggja að skólakerfið gegni því þjónustuhlutverki að gera foreldrum kleift að halda út á vinnumarkaðinn á ný eftir fæðingarorlof.

Margrét Sverrisdóttir, fulltrúi Íslandshreyfingarinnar, sagði mikilvægt að virkja sjálfstæði skóla þar sem vaxtabroddur samfélagsins liggi. Þá kvaðst hún hlynnt einkaskólum en að þeir megi þó ekki starfa á kostnað grunnskólans eða þannig að efnaráð ráði úrslitum varðandi gæði menntunar barna. Margrét og Valdimar Leósson, fulltrúi Frjálslynda flokksins sögðu einnig mikilvægt að færa málefni aldraðra til sveitarfélaganna og lagði Valdimar áherslu á mikilvægi þess að farið verði yfir málefni eldri borgara og að grundvallarþjónustu við þá, á vegum hins opinbera opinbera, verði komið í lag áður en farið verði út í að fela þjónustu við þá í hendur einkaaðila.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði ljóst að þrengt væri að börnum og öldruðum í samfélagi okkar og að þróa þurfi bæði íslenska leikskóla og grunnskóla. Þá sagði hún meira sjálfstæði nauðsynlegt innan skólanna, þannig að þeir séu ekki bundnir af hnausþykkum námsskrám. Ingibjörg sagði jafnframt að aðstæður aldraða á Íslandi væri þjóðarskömm sem leysa verði á næstu tveimur árum með að komu bæði einkaaðila og opinberra aðila. Þannig þurfi bæði að auka þjónustu við þá og fara yfir skattamál þeirra.

Katrín Jakobsdóttir, varaformaður Vinstri grænna, sagði flokkinn vilja afnema samræmd próf í grunnskólum og draga mjög úr þeirri áherslu sem lögð sé á kennslu samkvæmt námsskrá til að gefa fagfólki í skólunum svigrúm til að sinna því skapandi starfi sem þeir hafi sérhæft sig til. Þá lagði hún áherslu á mikilvægi þess að gert verði átak í búsetumálum aldraðra auk þess sem starfslok þeirra verði gerð sveigjanlegri en nú er. Sagði hún það þjón það bæði hagsmunum þeirra og samfélagsins að fólk fái að meta það sjálft hvenær það sé orðið of gamalt til að vinna.

Fundurinn bar yfirskriftina „Atkvæði kvenna" en á fundinum kom fram að þar sem skoðanakannanir sýni að stór hópur kvenna hafi ekki gert upp hug sinn varðandi það hvað þær ætli að kjósa í kosningunum í vor hafi fimm konur úr atvinnulífinu verið fengnar til að varpa fram spurningum til forsvarsmanna stjórnmálaflokkanna. Konurnar voru Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands, Margrét Pála Ólafsdóttir , formaður sjálfstæðra skóla, Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns og Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert