Svafa: Ný kynslóð Íslendinga lítur á sig sem Evrópubúa

Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, með Bjarni Ármannssyni, formanni …
Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, með Bjarni Ármannssyni, formanni stjórnar skólans. mbl.is/ÞÖK

Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, varpaði fram þeirri spurningu á morgunverðarfundi Viðskiptaráðs í morgun hvers vegna ungt fólk eigi að velja að búa og starfa á Íslandi fremur en annars staðar í heiminum. Sagði hún nýja kynslóð Íslendinga líta á sig sem Evrópubúa sem hafi frjálst val um búsetu og að val þeirra muni í auknum mæli byggist á þeim lífgæðum og atvinnutækifærum sem þeim bjóðist á Íslandi. Þá spurði hún sérstaklega um framtíð orkuiðnaðar á Íslandi.

Geir H. Haarde forsætisráðherra svaraði því til að það sé skylda okkar gagnvart komandi kynslóðum og umheiminum að nýta þá grænu orku sem finnist á Íslandi. Hann telji því varhugavert að segja algerlega stopp í stóriðjumálum að svo stöddu þótt auðvitað þurfi að taka tillit til umhverfissjónarmiða og gera hlutina af ábyrgð.

Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins tók í sama streng og sagði Íslendinga verða að varast að rykkja sér úr og í gír á þessu sviði. hann telji þó að Ísland eigi að verða forystuland í orkuiðnaðinum þó stóriðja megi einungis að vera hluti af atvinnuþróun Íslendinga.

Valdimar Leósson, fulltrúi Frjálslynda flokksins, tók í sama streng og sagði fólkið í landinu verða að fá að ráða atvinnuþróun í sínu nánasta umhverfi. Þannig sagði hann Húsvíkinga til dæmis verða að fá að ráða því hvort þeir vilji stóriðju í sína heimabyggð. Þeir hafi þeir þegar reynt ýmsa aðra kosti og séu því best færir um að taka slíka ákvörðun.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir var hins vegar á öndverðu meiði og sagði Íslendinga þegar hafa gengið of langt í stóriðjuframkvæmdum sínum. Engin spurning sé um það að Íslendingar eigi gríðarlega mikla orku sem einungis verði verðmætari með tímanum. Rangt sé hins vegar að nýta auðlindina af skammsýni til að framleiða ál enda sé orka okkar langt frá því að vera á síðasta söludegi.

Katrín Jakobsóttir, varaformaður Vinstri grænna, kvaðst vera á sama máli og Ingibjörg Sólrún enda telji hún rétt að gera hlé á virkjunar- og stóriðjustefnunni á meðan rannsóknir fari fram þannig að hægt verði að leggja mat á niðurstöður þeirra áður en hafist verði handa við nýjar framkvæmdir.

Margrét Sverrisdóttir, fulltrúi Íslandshreyfingarinnar, sagði hreyfinguna hins vegar vilja efla útrás Íslendinga í umhverfismálum og virkja hina óbeisluðu íslensku orkuauðlind með því að beisla hana ekki heldur leyfa henni að njóta sín og gjósa m.a. í eldfjallagörðum.

Fundurinn bar yfirskriftina „Atkvæði kvenna" en á fundinum kom fram að þar sem skoðanakannanir sýni að stór hópur kvenna hafi ekki gert upp hug sinn varðandi það hvað þær ætli að kjósa í kosningunum í vor hafi fimm konur úr atvinnulífinu verið fengnar til að varpa fram spurningum til forsvarsmanna stjórnmálaflokkanna. Konurnar voru Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Elín Sigfúsdóttir, framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbanka Íslands, Margrét Pála Ólafsdóttir , formaður sjálfstæðra skóla, Anna Birna Jensdóttir, framkvæmdastjóri Sóltúns og Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert