Erfið ákvörðun en nauðsynleg

Fréttamenn ræða við Pétur Óskarsson eftir að fyrstu tölur lágu …
Fréttamenn ræða við Pétur Óskarsson eftir að fyrstu tölur lágu fyrir. mbl.is/Brynjar Gauti

Pétur Óskarsson, talsmaður samtakanna Sólar í Straumi sem börðust gegn stækkun álversins í Straumsvík, segir úrslit kosninganna vera fagnaðarefni. „Þetta var naumt en engu að síður var nauðsynlegt að taka þessa ákvörðun. Þetta sýnir bara hvað þetta var erfið ákvörðun fyrir Hafnfirðinga að taka,“ sagði hann í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

Hann segir ljóst að íbúakosningunni hafi verið gríðarlega vel tekið enda kjörsóknin mjög góð. En kosningaþátttakan var um 76%.

Aðspurður segist Pétur ekki hafa áhyggjur af því að álverið í Straumsvík muni loka og fara úr Hafnarfirði. „Það er ekkert sem bendir til þess. Við leituðum mikið að raunverulegum upplýsingum sem gætu bent til þess hvenær fyrirtækið væri orðið of lítið til þess að vera arðbært, og við fundum ekkert,“ sagði Pétur og bætir við að helmingur álvera Alcan sé af sömu stærð eða minni en álverið í Straumsvík. „Álverið er í mjög góðum rekstri, álverð er hátt og það er mikil bjartsýni um álverð næsta áratuginn og rúmlega það. Það var því ekkert í kortunum sem studdi það sem við kölluðum hræðsluáróður.“

Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, sagði við blaðamenn í gær að henni þótti sem Alcan hefði ekki notið sannmælis í umfjöllun fjölmiðla fyrir kosningarnar. Þessu er Pétur ósammála. „Ég var hvergi var við neina mismunun hjá fjölmiðlum. Ég sá ekki annað en að þar sem við vorum þar voru þau. Þegar við sendum frá okkur tilkynningar þá var talað við þau og þeim gefið tækifæri á að svara.“

Aðspurður um næsta skref segir Pétur að félagar Sól í Straumi muni nú setjast niður með málsaðilum og fara yfir málið. „Við vonum að menn læri eitthvað af þessu. Það sem við getum helst gagnrýnt í þessu er aðkoma alþjóðlegs fyrirtækis að þessu, að það hafi ekki verið neinn rammi utan um fjárútlát til þessarar kosningabaráttu. Ég hefði líka viljað sjá bann við kosningaáróðri á kjördag [...] Það hefði gert þetta aðeins virðulegra. Mér þótti ekki gaman að sjá heilsíðuauglýsingar, og verið væri að koma á fólki páskaeggjum í búðum á kjördag. Mér fannst það óviðeigandi.“

Pétur segist eiga von á því að birtar verði tölur yfir kostnað samtakanna vegna kosningabaráttunnar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka