Mikilvægur áfangi í náttúruverndarbaráttunni

Stjórn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs fagnar úrslitum íbúakosningar í Hafnarfirði þar sem stækkun álvers Alcans var hafnað og Hafnfirðingar völdu græna framtíð. Úrslitin eru mikilvægur áfangi í baráttunni fyrir náttúru- og umhverfisvernd og gegn stóriðjustefnu stjórnvalda, segir í tilkynningu sem stjórnin hefur sent frá sér.

„Það er athyglisvert að rúmur helmingur Hafnfirðinga hafnar stækkun þó að aðeins bæjarfulltrúi Vinstri grænna hafi á tíðum andæft stækkunaráformunum í bæjarstjórninni. Þeim sjónarmiðum hefur vaxið fiskur um hrygg og því ber að fagna. Þau marka upphaf að fjölbreyttri atvinnustefnu og fráhvarf frá nauðhyggju stóriðjusinna.

Að lokinni atkvæðagreiðslunni í Hafnarfirði er vert að minna á að hún er aðeins fyrsti áfangi í baráttunni í þágu náttúrunnar. Nýting náttúruauðlinda kemur allri þjóðinni við og félagsleg og efnahagsleg áhrif stóriðjustefnunnar snerta þjóðina alla að sama skapi. Enn eru fyrirhuguð álver í Helguvík, Þorlákshöfn og Húsavík með tilheyrandi virkjanaframkvæmdum um land allt, t.d. í Jökulánum í Skagafirði, Neðri-Þjórsá, Langasjó, Brennisteinsfjöllum og víðar.

Það gefst færi á að kjósa um stóriðjustefnu stjórnvalda og framtíð náttúru landsins í Alþingiskosningum þann 12. maí næstkomandi. Þá geta allir Íslendingar valið græna framtíð,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert