Hafnfirðingar höfnuðu stækkun álversins í Straumsvík í íbúakosningu á laugardag með 88 atkvæða mun. Kjörsókn var mikil eða tæp 77%, sem er meiri kjörsókn en var í sveitarstjórnarkosningunum fyrir tæpu ári. Rannveig Rist, forstjóri Alcan, segir niðurstöðu kosninganna eitt versta áfall í sögu fyrirtækisins og Pétur Óskarsson, talsmaður Sólar í Straumi, segist ekki hafa áhyggjur af því að álverinu í Straumsvík verði lokað og það fari úr Hafnarfirði.
Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir úrslit kosningarinnar endurspegla það sem menn áttu von á, að afar mjótt væri á munum. „En þetta er eiginlega minni munur en ég átti von á, ekki síst vegna þess að það var gríðarlega mikil þátttaka og það er það ánægjulegasta við þessar kosningar." Hann segir ekki óeðlilegt að löggjafinn setji rammalöggjöf um kosningar sem þessar og í sama streng tekur Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra. „Þetta eru ákveðin þáttaskil hvað varðar íbúalýðræði og ég tel að það sé alveg ljóst að í framhaldinu verðum við að setja skýrari reglur og ramma um slíkar kosningar," segir hún.
Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins og iðnaðarráðherra, segir að niðurstaðan haldi ekki lengur en bæjarstjórnin vilji. Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, segir úrslitin stóran sigur fyrir lýðræðið og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að kosningin í Hafnarfirði marki söguleg tímamót.