Ágúst Ólafur: Hætta á að atkvæði detti niður dauð

Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir flokkinn ætla sér að fá mun meira fylgi í kosningunum í maí en hann hafi nú samkvæmt skoðanakönnunum. Þá segist hann sannfærður um að stefnumál Samfylkingarinnar muni ná eyrum kjósenda á næstu vikum og að það muni auka fylgi flokksins til muna.

Töluverðar sveiflur hafa verið á fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboða samkvæmt vikulegum skoðanakönnunum sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið. Fylgi Sjálfstæðisflokksins er nú 40,6% samkvæmt símakönnun sem gerð var dagana 28. mars til 2. apríl en fylgi Vinstri grænna 21,1%. Fylgi Samfylkingarinnar hefur hins vegar breyst mun minna á undanförnum vikum og mælist nú 19,5%.

Ágúst Ólafur kveðst telja tilkomu nýrra framboða valda ákveðnu róti á fylginu þar sem fólk sé að kynna sér ný framboð og hugsa málin. Þá segist hann telja ákveðna hættu á því að atkvæði kjósenda minnstu flokkanna muni detta niður dauð og þannig styrkja stöðu stjórnarflokkanna þvert á fyrirætlanir þessara flokka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert