Ríkisstjórnin heldur naumlega velli ef marka má niðurstöður nýjustu skoðanakönnunar Capacent Gallups. Fylgið þarf lítið að hreyfast til að gjörbreyta stöðunni, meðal annars vegna þess að fylgi Íslandshreyfingarinnar þarf ekki að aukast nema lítillega til að hún nái mönnum inn á þing.
Könnunin var gerð dagana 28. mars til 2. apríl og náði til 1.610 manna úrtaks og var svarhlutfallið 61,8%. Útreikningar á þingmannafjölda byggjast hins vegar á fylgi flokkanna í könnunum tvær síðustu vikunar. Samkvæmt þeim niðurstöðum fengi Sjálfstæðisflokkurinn 27 menn kjörna og Framsóknarflokkurinn fimm menn eða samtals 32 þingsæti af 63 á þingi. Vinstri grænir fengju 15 menn kjörna, Samfylkingin 13 og Frjálslyndir þrjá, en Íslandshreyfingin myndi ekki ná inn manni samkvæmt niðurstöðunum.
Þegar fylgi flokkanna er skoðað eftir einstökum kjördæmum kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn er sterkastur í Kraganum þar sem hann fær tæp 47% atkvæða ef marka má niðurstöður könnunarinnar. Flokkurinn er með vel rúmlega 30% atkvæða í öllum kjördæmum, en minnst er fylgið í Norðaustur- og Norðvesturkjördæmi þar sem fylgið er rétt rúm 33%.
Vinstri grænir eru með mest fylgi í Reykjavíkurkjördæmi norður þar sem þeir eru með 27,2% og minnst er fylgið í Norðvesturkjördæmi, 19%. Samfylkingin er einnig með mest fylgi í Reykjavíkurkjördæmi norður þar sem hún fær 22,9% en minnst er fylgið í Suðurkjördæmi, 16,7%.
Hins vegar skiptir alveg í tvö horn með fylgi Framsóknarflokksins. Það er lítið í öllum þéttbýliskjördæmunum, minnst í Reykjavíkurkjördæmi norður, 2,7%, en til muna meira í landsbyggðarkjördæmunum og mest í Norðausturkjördæmi þar sem það er 19,6%. Frjálslyndir eru með mest fylgi í Norðvesturkjördæmi, 9,5%, og Suðurkjördæmi 8%. Fylgi Íslandshreyfingarinnar er mest í Reykjavíkurkjördæmi norður þar sem það er 7,4%, en listinn þarf 9% til að ná inn manni þar og 5% á landsvísu til að fá þrjá uppbótarmenn.
Stuðningur kynjanna er mjög mismunandi eftir flokkum, en hlutfallslega mun fleiri karlar en konur styðja Sjálfstæðisflokkinn og Frjálslynda og öfugt hvað varðar Samfylkinguna og VG. Þannig styðja 27% kvenna VG og tæp 18% karla og 15% karla styðja Samfylkinguna og 24% kvenna. Sjálfstæðisflokkinn styðja hins vegar 45% karla og tæp 32% kvenna.