Rúmlega 55% landsmanna hafa jákvætt viðhorf til Geirs H. Haarde, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, en tæplega 19% eru neikvæð gagnvart honum. Þetta kemur m.a. fram í símakönnun sem Capacent Gallup gerði dagana 28. mars til 2. apríl um viðhorf til formanna stjórnmálaflokkanna.
Samkvæmt könnuninni er Geir sá formaður sem nýtur mestra vinsælda og að auki eru fæstir neikvæðir gagnvart honum.
Fleiri höfðu jákvæða afstöðu en neikvæða gagnvart tveimur öðrum formönnum stjórnmálaflokka; Steingrími J. Sigfússyni formanni Vinstri grænna og Ómari Ragnarssyni formanni Íslandshreyfingarinnar. Steingrímur er sá formaður sem kemur næstur Geir í vinsældum en jákvæði gagnvart honum mældist rúm 50%.
Flestir neikvæðir gagnvart
Ingibjörgu Sólrúnu
Fleiri höfðu neikvæða afstöðu en jákvæða gagnvart þremur formönnum stjórnmálaflokka; Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formanni Samfylkingarinnar, Jóni Sigurðssyni, formanni Framsóknarflokksins, og Guðjóni A. Kristjánssyni, formanni Frjálslynda flokksins.
Ingibjörg Sólrún er sá formaður sem flestir voru neikvæðir gagnvart eða rúm 50%.
Af þeim sem voru jákvæðir gagnvart Steingrími J. Sigfússyni kváðust 93% ætla að kjósa Vinstri græna og rúm 93% þeirra sem voru jákvæðir gagnvart Geir H. Haarde ætla að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Þá ætla rúmlega 87% þeirra sem voru jákvæðir gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að kjósa Samfylkinguna. Rúm 7% þeirra sem voru neikvæðir gagnvart Jóni Sigurðssyni ætla að kjósa Framsóknarflokkinn.
Rúmlega 58% þjóðarinnar eru hlynnt því að hlé verði gert á frekari stóriðju í landinu næstu fimm árin en tæplega 33% þjóðarinnar eru því andvíg. Rúmlega 66% kvenna eru hlynnt hléi á stóriðju en tæp 49% karla. Meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokks er andvígur því að hlé verði gert á stóriðju eða tæplega 52%. Þá eru tæplega 45% kjósenda Framsóknarflokks andvíg hléi á stóriðju. Rúmlega 90% kjósenda Vinstri grænna eru hlynnt því að hlé verði gert á stóriðju og tæplega 74% kjósenda Samfylkingarinnar.