Í nýju riti Samfylkingarinnar um efnahagsmál, sem starfshópur undir stjórn Jóns Sigurðssonar, fyrrum ráðherra og seðlabankastjóra vann að, segir m.a. ljóst að hagstjórnarvandi næstu ríkisstjórnar verði ærinn en rétt sé á haldið séu möguleikarnir til framfara í íslenskum þjóðarbúskap einnig miklir. Færð eru m.a. rök að því að fara þurfi fram ítarleg athugun á því hvort hentugt sé fyrir Ísland að taka upp evru sem lögeyri og einnig eru færð ýmis rök fyrir aðild að Evrópusambandinu.
Í ritinu, sem var kynnt á sérstökum fundi nú í morgun, segir m.a. að sterk staða ríkissjóðs og lækkandi ríkisskuldir hafi verið helsti jákvæði þátturinn í efnahagsmyndinni upp á síðkastið. Sá bati hafi þó aðallega byggst á umframtekjum af ofþenslunni og sölu ríkiseigna en síður á árangri við útgjaldastjórn. Nú virðist á hinn bóginn ljóst að tekjuafgangur ríkisjóðs minnki mjög á þessu ári og gæti snúist í halla árið 2008. Hættan sé sú að Ísland missi trúverðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, en þá væri voðinn vís með hækkandi vaxtaálagi, gengisfalli og verðbólgugusu.
Jón Sigurðsson segir í formála ritsins, að arðbær fjárfesting liggi að hluta að baki mikilli erlendri skuldsetningu þjóðarbúsins og hún skili vonandi góðum tekjum þegar fram í sækir. Það sé hins vegar áhyggjuefni hversu stór hluti viðskiptahallans stafar af aukinni einkaneyslu. Þá kunni arður af fjárfestingum erlendis að láta bíða eftir sér. Við misvægisvandann bætist að þrátt fyrir ört vaxandi tekjur ríkissjóðs í góðærinu og aukinn hlut ríkisins í þjóðartekjunum hafi ýmis skylduverk þess á sviði félagslegrar þjónustu og lífskjarajöfnunar verið vanrækt á síðasta áratug. Það sé því með öllu ljóst að hagstjórnarvandi næstu ríkisstjórnar verði ærinn.
„Ef rétt er á haldið eru möguleikarnir til framfara í íslenskum þjóðarbúskap einnig miklir þegar horft er til framtíðar. Til þess að þessir möguleikar nýtist sem best þarf annars vegar traust og sanngjarnt velferðar-, trygginga- og menntakerfi á vegum hins opinbera og hins vegar öflugt atvinnulíf á grundvelli viðskiptafrelsis og opinna markaða með virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi," segir síðan.