Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, segir ljóst að flokkurinn hafi meðbyr í þjóðfélaginu en flokkurinn fær 6,1% atkvæða samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið dagana 3. til 9. apríl 2007. Fylgi flokksins hefur aukist um 0,7% frá síðustu könnun og hefur ekki verið meira frá því áður en formlegt framboð Íslandshreyfingarinnar kom fram.
Sjálfstæðisflokkurinn fær 37,1,% atkvæða samkvæmt könnuninni. Vinstrihreyfingin – grænt framboð fær 24,9% atkvæða, Samfylkingin 18,1% atkvæða og Framsóknarflokkurinn 9,9% atkvæða. Íslandshreyfingin - lifandi land fær 2,9% atkvæða og Baráttusamtökin fá 0,9% atkvæða.
Samkvæmt skoðanakönnunum síðustu vikna eru fáir möguleikar á myndun tveggja flokka ríkisstjórnar að loknum næstu kosningum og gæti það veitt minni flokkunum aukið vægi varðandi hugsanlegt stjórnarsamstarf.