Sveiflur á fylgi D og V innan skekkjumarka

Miklar sveiflur hafa verið á fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna í vikulegum fylgiskönnunum sem Capacent Gallup hefur gert fyrir Morgunblaðið og Ríkisútvarpið á undanförnum vikum. Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, rannsóknarstjóri Capacent Gallup, segir sveiflurnar óvenjumiklar en þó innan vikmarka. Þá segir hún sérstakt hvernig fylgi þessara flokks speglast, samkvæmt könnununum, þannig að þegar aukið fylgi mælist við Sjálfstæðisflokkinn minnki fylgi við Vinstri græna og öfugt.

Guðbjörg segir speglunina merkilega en að líklegast sé þó að um tilviljun, sem rekja megi til úrtakssveiflna, sé að ræða. Þá segir hún ekki hægt að grafast fyrir um ástæðu speglunarinnar nema hugsanlega með því að kanna umhverfisþætti á borð við umræðuna í samfélaginu á þeim tímum sem kannanirnar voru gerðar.

Guðbjörg bendir jafnframt á að skekkjumörk mælinganna séu mest í mælingum á fylgi Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna þar sem skekkjumörk aukist alltaf með hærri tölum í líkindareikningi. Þetta megi skýra með því að líklegra sé að stuðningsmenn stærri flokkanna lendi í tilviljunarkenndu úrtaki en stuðningsmenn minni flokkanna þar sem þeir séu einfaldlega færri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert