Amal Tamimi, fræðslufulltrúi Alþjóðahúss, sagði á landsfundi Samfylkingarinnar í dag að sú umræða sem nú fer fram um innflytjendur á Íslandi sé hættuleg og að finna þurfi leið til að svara henni. Hvatti hún til stofnunar innflytjendaráðuneytis og þess að boðið verði upp á ókeypis íslenskunám fyrir alla þá sem hingað koma. Þá sagði hún samskipti og fræðslu vera grundvöll samskipta nýbúa og síbúa.
Dagný Ósk Aradóttir, formaður Stúdentaráðs, sagði í umræðum undir yfirskriftinni Auður Íslands að flokkarnir sem bjóði fram til Alþingis ausi úr sér loforðum og að það virðist oft tilviljunum háð hvaða mál verða kosningamál. Hún sagði það hins vegar ekki mega gleymast að megin forsenda þess að hægt sé að standa við öll stóru orðin sé menntun og að margsannað sé að þeir fjármunir sem eru lagðir séu í menntun skili sér margfalt til baka út í þjóðfélagið.
Ragnhildur Sigurðardóttir bóndi lagði í umræðunum áherslu á mikilvægi landbúnaðarmála og sagði að þau ættu að sameina land og þjóð. Þá sagði hún þann ágreining sem sé látið í veðri vaka að ríki um landbúnaðarmál, varla vera fyrir hendi.