Stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar samþykkt

Frá landsfundi Samfylkingarinnar
Frá landsfundi Samfylkingarinnar Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Drög að stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar voru að mestu samþykkt án breytinga á fundinum í dag. Við afgreiðslu starfshópa um nánari útfærslu ályktunarinnar var þó m.a. bætt inn ákvæði um að haft verði samráði við atvinnurekendur og samtök lífeyrisþega um lækkun skatta á eldri borgara. Þá var fellt niður ákvæði um að aðgerðir, til að tryggja jafna stöðu útlendinga, skuli eiga við innan stéttarfélaga.

Stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar fer í heild sinni hér á eftir:

    Framtíð lands – framtíð þjóðar

    Stjórnmálaályktun landsfundar Samfylkingarinnar 2007

    Jafnaðarmenn hafa lagt grunninn að velferðarsamfélögum Norðurlanda. Þar er jöfnuður meiri en annars staðar og atvinnulífið jafnframt samkeppnishæfast. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld á Íslandi sveigt af þessari leið. Í komandi kosningum verður kosið um það hvort jafnaðarstefnunni verður beitt á ný til að auka lífsgæði á Íslandi.   Jafnvægi og framfarir; efling velferðarkerfisins og ábyrg efnahagsstjórn eru rauði þráðurinn í stefnu Samfylkingarinnar. Samfylkingin vill þjóðarsátt um nýtt jafnvægi í efnahagsmálum og ný vinnubrögð til að tryggja samstillingu efnahagsaðgerða. Efnahags- og umhverfisstefna Samfylkingarinnar slær á þenslu og skapar svigrúm fyrir átak í velferðar- og samgöngumálum.

    Samfylkingin mun rétta hlut aldraðra og öryrkja gagnvart almannatryggingum, tryggja aðgengi allra að heilbrigðiskerfinu óháð efnahag og útrýma biðlistum með fjögur hundruð nýjum hjúkrunarrýmum á næstu tveimur árum.

    Samfylkingin mun hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun til að sporna gegn fátækt.  Einnig aðgerðaáætlun um málefni barna og auka þannig stuðning samfélagsins við börn og barnafjölskyldur, draga úr skerðingum á barnabótum vegna tekna og bæta tannvernd barna með ókeypis eftirliti.  Takast þarf á við neyslu ávana- og fíkniefna með áherslu á forvarnir, meðferð og endurhæfingu.

    Kynjajafnrétti er ein af grunnstoðum jafnaðarstefnunnar. Samfylkingin lýsir yfir skýrum pólitískum vilja til að útrýma launamun kynjanna, afnema launaleynd, koma á fullu jafnrétti milli karla og kvenna og gera Ísland að fyrirmyndarsamfélagi á sviði jafnréttismála.

    Samfylkingin vill stuðla að gjaldfrjálsri menntun frá leikskóla að háskóla. Námsbækur í framhaldsskólum verði nemendum að kostnaðarlausu. Fjölga á nemendum sem ljúka framhaldsskólaprófi og samþætta símenntun menntakerfinu í heild. Breyta skal 30% námslána í styrk og greiða námslán út mánaðarlega.

    Samfylkingin vill búa atvinnulífinu hagstætt rekstrarumhverfi þannig að hingað sæki erlend fjárfesting í auknum mæli. Samfylkingin vill hefja áratug hátækninnar með samræmdum aðgerðum í þágu þekkingariðnaðarins og m.a. fjórfalda framlag í Rannsóknarsjóð og Tækniþróunarsjóð á næstu fjórum árum. Samfylkingin vill treysta undirstöður menningarstarfsemi sem mikilvægrar auðlindar í landinu.

       Samfylkingin leggur áherslu á að skattar af lífeyrissjóðsgreiðslum verði lækkaðir niður í tíu prósent og frítekjumark fyrir atvinnu- og lífeyristekjur eldri borgara verði 100.000 krónur, stimpilgjöld af lánum vegna húsnæðiskaupa verði afnumin, sem og vörugjöld og tollar af matvælum, virðisaukaskattur af lyfjum verði lækkaður og að tekið verði upp gagnsærra og réttlátara skattkerfi þar sem „grænir skattar” fá aukið vægi.

    Samfylkingin vill tryggja öllum landsmönnum sambærileg lífskjör óháð búsetu og að þeir eigi greiðan aðgang að menntun, atvinnu og þjónustu. Forsenda þessa er raunhæf byggðastefna sem byggist á stórátaki í samgöngumálum, neti háskólastofnana á landsbyggðinni og auknu athafnafrelsi í landbúnaði. Á næsta kjörtímabili verði 1200 störf óháð staðsetningu á vegum ríkisins auglýst laus til umsóknar. Samfylkingin vill að frekari stjóriðjuáformum verði slegið á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildaráætlun yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð. Tryggð verði friðun Þjórsárvera, Langasjós, Jökulsár á Fjöllum, Skjálfandafljóts, Jökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals.

    Loftslagsváin er nú helsta sameiginlega úrlausnarefni mannkyns. Samfylkingin vill tímasetta metnaðarfulla áætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Samfylkingin vill að þjóðareign á sameiginlegum auðlindum verði bundin í stjórnarskrá. Samfylkingin leggur höfuðáherslu á lýðræðismál með auknu íbúalýðræði og réttur almennings til þjóðaratkvæðagreiðslna verði tryggður í stjórnarskrá.

    Samfylkingin vill að utanríkisstefna þjóðarinnar verði mótuð í ljósi þjóðarhagsmuna og sé sæmandi sjálfstæðri þjóð. Sótt verði um aðild að Evrópusambandinu og aðildarviðræður hafnar. Unnið verði að víðtækri samstöðu um samningsmarkmið og niðurstöður bornar um þjóðaratkvæði. Samfylkingin hefur þá staðföstu skoðun að það eigi að verða eitt fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að taka Ísland út af lista hinna vígfúsu þjóða. Samfylkingin vill tryggja jafna stöðu útlendinga á vinnumarkaði og koma í veg fyrir félagsleg undirboð.

    Samfylkingin stefnir að því að landið verði gert að einu kjördæmi. Samfylkingin vill endurskoða stjórnarráð Íslands, stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti, tryggja faglegar ráðningar í opinber embætti, stuðla að jafnræði kynjanna í ríkisstjórn og í stjórnunarstöðum ráðuneyta og stofnana.

    Samfylkingin mun beita sér fyrir því að lögum um eftirlaun æðstu embættismanna verði breytt og meira jafnræði komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings.

    Komandi kosningar eru mjög mikilvægar. Það er þjóðarnauðsyn að bæta fyrir vanrækslusyndir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum. Samfylkingin berst fyrir auknum jöfnuði, jafnvægi í efnahagsmálum og félagslegum framförum.

      Hinn 12. maí verður kosið um framtíð lands og framtíð þjóðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert