Fylgi Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs mælist 16,7% í nýrri skoðanakönnun, sem Fréttablaðið birtir í dag. Þetta er talsvert minna fylgi en flokkurinn hefur mælst með undanfarið en mun meira en hann fékk í síðustu kosningum og samkvæmt útreikningum blaðsins fengi VG 11 þingmenn en fékk 4 í kosningunum.
Fylgi Sjálfstæðisflokks mælist 43,4% í könnuninni. Samkvæmt því fengi flokkurinn 29 þingmenn og bætti við sig sjö. Fylgi Samfylkingar mælist 22,3% og fengi flokkurinn samkvæmt því 15 þingmenn, missti 5. Fylgi Framsóknarflokks mælist 8,6% í könnuninni og fengi flokkurinn 5 þingmenn, tapaði 7. Fylgi Frjálslynda flokksins mælist 5,8% og flokkurinn fengi samkvæmt því 3 þingmenn, tapaði einum.
Fylgi Íslandshreyfingarinnar mælist nú 2,3% og 0,8% segjast myndu kjósa Baráttusamtökin.
Hringt var í 800 manns á kosningaaldri í gær. 59,9% aðspurðra tóku afstöðu en 31,3% voru óákveðin, 6,6% neituðu að svara og 2,3% sögðust ætla að skila auðu eða ekki ætla að kjósa.