Höfuðborgarsamtökin segja í yfirlýsingu, sem þau sendu frá sér í dag, að samstarf innan Baráttusamtakanna hafi gengið brösuglega frá upphafi því stjórn þeirra hafi verið galopin fyrir undirróðri flugvallarsinna. Í mars var gerður var samstarfssáttmáli milli Höfuðborgarsamtakanna og Baráttusamtaka eldri borgara um sameiginlegt framboð en upp úr því samstarfi slitnaði í síðustu viku.
Yfirlýsing Höfuðborgarsamtakanna er eftirfarandi:
Í samstarfssáttmálanum eru m.a. tilgreind 8 aðalmál í málefnaskrá. Helsta baráttumál Höfuðborgarsamtakanna er að finna í tölulið 8.5 í samstarfssáttmálanum: „Flugvöllur verði byggður á jaðri höfuðborgarsvæðisins fyrir árslok 2011". Áður höfðu Höfuðborgarsamtökin fallið frá orðalaginu „Flugvöllur verði farinn úr Vatnsmýri fyrir árslok 2011".
Samstarf innan Baráttusamtakanna gekk brösuglega frá upphafi því í röðum eldri borgara var í raun aðeins einn einstaklingur, sem öllu réð. Að auki var stjórn þeirra galopin fyrir undirróðri flugvallarsinna. Þeir gjörnýttu sér veikleikann í stjórn eldri borgara, sem kröfðust þess að samstarfsaðilinn felldi sitt helsta baráttumál, flugvöllinn burt, út úr málefnaskrá Baráttusamtakanna og einbeitti sér þess í stað að baráttumálum eldri borgara.
Fulltrúar Höfuðborgarsamtakanna reyndu í lengstu lög að halda samstarfinu um Baráttusamtökin gangandi, m.a. í þeirri von að meiri breidd og ábyrgð skapaðist í forystu eldri borgara, en þann 12.04.2007 tilkynnti forystumaður þeirra að samstarfinu væri lokið.
Sama dag birtu fjölmiðlar inntak úr opinberum skýrslum samgönguyfirvalda og Reykjavíkurborgar, þar sem tekin eru af öll tvímæli um að sjónarmið og fagleg vinna Höfuðborgarsamtakanna og annarra, sem barist hafa gegn flugstarfsemi í Vatnsmýri og fyrir skilvirku og mannvænu borgarskipulagi árum saman, standa í einu og öllu óhögguð.
Frá sl. hausti hafa staðið yfir viðræður á milli ýmissa hópa lýðræðissinna, málssvara borgarsamfélagsins, umhverfisverndarsinna, náttúruverndarsinna, eldri borgara, öryrkja og klofningshópa með það að markmiði að ná breiðri samstöðu um nýtt framboð. Það tókst því miður ekki að þessu sinni og er höfuðástæðan pólitískur metnaður einstaklinga á kostnað málefnanna.
Þessir hópar ættu nú þegar að draga saman lærdóm af viðleitni undanfarinna mánaða. Höfuðborgarsamtökin munu ekki skorast undan þátttöku í samræðum um möguleika á samstarfi í kosningunum 2010 og 2011.