Sjálfstæðisflokkurinn fengi 42,5% atkvæða í Reykjavíkurkjördæmi suður væri gengið til kosninga nú samkvæmt nýrri skoðanakönnun Capacent Gallup fyrir Sjónvarpið og Morgunblaðið. Samfylkingin fengi 24,9% atkvæða, Vinstrihreyfingin - grænt framboð fengi 18,8% atkvæða, Íslandshreyfingin fengi 5,4 % atkvæða. Framsóknarflokkurinn fengi 4,5% atkvæða og Frjálslyndi flokkurinn 3,9% atkvæða.
Samkvæmt þessu fengi Sjálfstæðisflokkurinn fimm kjördæmakjörna þingmenn í kjördæminu og Samfylking og Vinstri grænir fengju tvo kjördæmakjörna þingmenn hvor flokkur. Á yfirstandandi kjörtímabili hafði Sjálfstæðisflokkur fjór kjördæmakjörna þingmenn í kjördæminu. Samfylking hafði þrjá og Vinstri grænir einn. Þá hafði Framsóknarflokkurinn einn kjördæmakjörinn þingmann í kjördæminu eftir síðustu kosningar.
Fylgistölur eru reiknaðar út frá svörum við þremur eftirfarandi spurningum:
„Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“ Þeir sem voru óákveðnir voru spurðir: „En hvaða flokkur eða listi yrði líklegast fyrir valinu?“ Þeir sem enn voru óákveðnir voru spurðir: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“
Könnunin var gerð dagana 15. til 19. apríl og var úrtakið 800 manns, átján ára og eldri. Nettósvarhlutfall var 60,7%.