Skemmdir voru unnar í nótt á auglýsingaskiltum Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi á Egilsstöðum og er þetta í annað skipti á örfáum dögum sem slíkt er gert. Hefur enskt slagorð hefur nú verið málað yfir mynd af frambjóðendum Framsóknarflokksins á skiltunum.
Flokkurinn segir, að áletrunin á skiltunum sé slagorð, sem erlendir virkjanaandstæðingar hafi notað í aðgerðum sínum gegn Kárahnjúkavirkjun og uppbyggingu iðnaðar á Austurlandi. Þær aðgerðir hafi haft það að markmiði að spilla eignum og valda röskun í samfélaginu.
Segist Framsóknarflokkurinn harma að reynt sé að hafa áhrif á kosningabaráttuna með þessum hætti í Norðausturkjördæmi og skorar á þá sem standa fyrir þessum skemmdarverkum, að koma fram opinberlega og mæta frambjóðendum flokksins í umræðum um atvinnumál, byggðamál og vistvæna orkunýtingu á málefnalegum grunni.