Flestir fulltrúarnir voru auk þess sammála um að færa ætti verkefni félagsþjónustunnar frá ríkinu til sveitarfélaga en skiptar skoðanir voru á því hvenær slíkt gæti gerst – vegna bágborinnar stöðu ýmissa sveitarfélaga.
Á fundinum gafst gestum færi á að spyrja Geir H. Haarde, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, Steingrím J. Sigfússon, Siv Friðleifsdóttur, Guðjón Arnar Kristjánsson, Arndísi Björnsdóttur og Ólaf Hannibalsson út í hin ýmsu mál og var m.a. tæpt á aukinni atvinnuþátttöku öryrkja. Í því máli voru fulltrúar flokkanna nokkuð sammála um að grípa þyrfti til aðgerða og vísaði forsætisráðherra m.a. í niðurstöður nefndar um endurskoðun örorkumats og eflingu starfsendurhæfingar. Geir tók jafnframt fram að hann vildi sjá tillögur nefndarinnar í framkvæmd sem fyrst.
Enginn fulltrúanna útilokaði að hægt væri að auka þátttöku öryrkja á vinnumarkaði en t.a.m. var rætt um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja í því sambandi. Siv sagði að fyrirtækin gætu gert meira og tók Guðjón undir það. Guðjón sagði jafnframt að öryrkjar yrðu að sjá hvata í því að fara út á vinnumarkaðinn og því ættu skattleysismörkin að vera hærri. Allir voru sammála um að atvinnulífið yrði að vera sveigjanlegt, þar sem t.d. persónulega liðveislu þyrfti á vinnustað. Einnig þyrfti að koma til móts við fyrirtæki sem tækju þátt í því að koma fótunum undir öryrkja á ný.
Þegar fulltrúarnir voru spurðir hvað það væri sem fyrst af öllu ætti að gera, öldruðum og öryrkjum til hagsbóta, voru svörin sambærileg. Guðjón Arnar nefndi að hækka þyrfti frítekjumarkið og draga úr skerðingu. Siv sagði að setja ætti frítekjumark á lífeyrisgreiðslur þar sem það myndi koma langflestum til góða. Geir sagðist vilja byrja á því að afnema þá skerðingu sem fólk yrði fyrir þegar það væri komið um sjötugt og vildi afla sér launatekna.
Steingrímur vill hækka grunnlífeyrinn og skattleysismörkin verulega. Ingibjörg Sólrún nefnir frítekjumarkið og að hækka þurfi aldurstengdar örorkubætur. Arndís segir að afnema eigi alla skerðingu og Ólafur vill taka upp ákveðið frítekjumark fyrir lífeyrissjóðstekjur í samræmi við frítekjumark atvinnutekna – auk þess sem hækka eigi skattleysismörkin.