Samfylkingin vill tryggja börnum og öldruðum á biðlistum örugga þjónustu

Samfylkingin kynnti í dag tillögur að aðgerðum sem miða að því að tryggja þeim börnum og öldruðum viðunandi þjónustu sem nú eru á biðlistum í brýnni þörf fyrir úrræði. Tillögurnar fela m.a. í sér að þegar verði gripið til aðgerða til að eyða biðlistum á BUGL og Greiningastöð ríkisins og að veitt verði bráðaþjónusta allan sólarhringinn fyrir börn með geðraskanir og aldraða.

Þá leggur Samfylkingin til að leitað verði samstarfs við heilsugæslustöðvar, skóla og félagsþjónustu sveitarfélaga um uppbyggingu foreldrafræðslu i öllum sveitarfélögum, sem hafi þann tilgang að efla foreldrafærni, að því er segir í tilkynningu.

Samningur við BUGL

Í fyrsta lagi hyggst Samfylkingin gera kostnaðargreindan og árangurstengdan samning við BUGL um að eyða biðlistanum eftir þjónustu stofnunarinnar.

Í öðru lagi hyggst Samfylkingin einnig gera samning við BUGL um að veita bráðaþjónustu allan sólarhringinn.

Samfylkingin hyggst í þriðja lagi leita samninga og leggja til fé í foreldrafræðslu og þjálfun fagfólks í samvinnu við heilsugæslustöðvar, skóla, og félagsþjónustu sveitarfélaga. Fjölga þarf valkostum við hefðbundna stofnanaþjónustu er fela í sér úrræði og stuðning við börn og fjölskyldur þeirra á heimilum þeirra eða í nærumhverfi.

Samningur um sólarhringsþjónustu fyrir aldraða í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými

Á fyrstu 18 mánuðunum í ríkisstjórn Samfylkingarinnar verða byggð 400 hjúkrunarrými fyrir aldraða til að eyða biðlista þeirra sem eru í brýnni þörf. Þangað til þeim biðlista hefur verið eytt verður gerður samstarfssamningur við sjúkrahús og hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu, í samráði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðis og félagsþjónustu, um sólarhringsþjónustu við þennan hóp aldraðra. Fyrirmyndin er sólarhringsþjónusta LSH við aldraða í heimahúsi. Gerð verður úttekt á þörf fyrir sams konar þjónustu á landsbyggðinni.

Samningur við Greiningastöð ríkisins um að eyða biðlistum vegna greiningar á þroskafrávikum

276 börn eru á biðlista Greiningarstöðvar ríkisins. Þau bíða greiningar á þroskafrávikum þannig að leikskólar, skólar eða aðrir stuðningsaðilar geti hafið viðeigandi meðferð. Sum barnanna hafa beðið allt að þrjú ár eftir greiningu. Það sér hver maður að þetta er óviðunandi, mikilvægustu þroskaárin líða án þess að börnin fái þann stuðning sem þau þurfa á að halda eða rétta meðferð. Samfylkingin mun sjá til þess að þegar í stað verði gerðir samningar við Greiningastöð ríkisins um að ljúka þessum biðlista og um leið koma á framtíðarfyrirkomulagi til að fyrirbyggja að þeir hlaðist upp aftur.

Gerður verður kostnaðar- og árangurstengdur samningur sem gerir Greiningarstöð ríkisins kleift að bæta við starfsfólki á höfuðborgarsvæðinu og gera samninga við heilbrigðisstofnanir og teymi sérfræðinga á landsbyggðinni um frumgreiningar. Áform félagsmálaráðuneytisins um að ljúka slíku fyrir 2010 duga ekki þeim hundruðum sem í dag bíða greiningar. Þetta verður forgangsmál hjá Samfylkingunni í nýrri ríkisstjórn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert