Sjálfstæðisflokkur með 40% fylgi samkvæmt könnun

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 40,6% í skoðanakönnun, sem Fréttablaðið birtir í dag. Samkvæmt því fengi flokkurinn 27 þingmenn kjörna í kosningum. Fylgi Samfylkingarinnar mælist 22,5% og fengi flokkurinn 15 þingmenn. Fylgi VG mælist 18% sem þýðir 12 þingmenn, Framsóknarflokkur er með 10,1% og 6 þingmenn samkvæmt könnuninni og Frjálslyndi flokkurinn fær 5,4% og þrjá þingmenn, allt jöfnunarmenn.

Blaðið segir að ef marka megi könnunina komist þrír af núverandi ráðherrum Framsóknarflokksins ekki inn á þing, þau Jón Sigurðsson, Jónína Bjartmarz og Siv Friðleifsdóttir. Þá kemst Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, ekki heldur að.

Hringt var í 3600 manns dagana 23.-28. apríl og skiptust svarendur jafnt niður eftir kyni og kjördæmum. 61,4% tóku afstöðu til spurningar um stuðning við flokk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka